sidenav arrow up
sidenav arrow down

Umhverfismál

Orkuveita Reykjavíkur er á meðal stærstu fyrirtækja landsins og frammistaða OR og dótturfélaga í umhverfismálum skiptir því máli. Helstu umhverfisverkefni samstæðunnar má sjá í meðfylgjandi lista. Starfsemi samstæðu OR er vottuð samkvæmt ISO 14001 staðlinum. Samstæðan gefur reglubundnar skýrslur um umhverfismál til heilbrigðiseftirlita, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar sem jafnframt eru leyfisveitendur og sinna eftirliti með starfseminni, sjá viðauka.

Samstæða OR hefur lagt áherslu á vatnsvernd, vatnsvinnslu og meðhöndlun úrgangs, sjá kafla E7-E8. Í köflum sem varða sérstök umhverfisáhrif, E10, er fjallað um umhverfisslys við Andakílsárvirkjun, vinnslu úr háhitasvæðum, losun brennisteinsvetnis og hreinsistöðvar fráveitu svo dæmi séu tekin.

Áhersla samstæðu OR í umhverfismálum:

  • Leggja ríka áherslu á vatnsvernd, sýna ábyrga vinnslu úr vatnsauðlindum og vinna heilnæmt neysluvatn til langrar framtíðar
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr lághitaauðlindum
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr háhitaauðlindum, draga úr losun brennisteinsvetnis og losa jarðhitavatn á ábyrgan hátt
  • Sýna ábyrga umgengni og rekstur fráveitu
  • Meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt
  • Beita áfram árangursríkum aðferðum við frágang vegna rasks
  • Vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum

E7 Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Heilsa og vellíðan Hreint vatn og salernisaðstaða Sjálfbærar borgir og samfélög Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2018 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna, sjá viðauka.

Gæði neysluvatns í Reykjavík

Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö, sjá viðauka. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.

Í ársbyrjun 2018 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í fimm neysluvatnssýnum úr borholum í Heiðmörk. Í kjölfarið var staðan greind, sýnatökueftirlit aukið og neysluvatn lýst úr einni borholu til að draga úr líkum á því að örverur berist í vatnsveituna við sérstakar veðuraðstæður. Unnið er að tilraunarverkefni á samtímagreiningu á örverum í neysluvatni. Síðla árs 2018 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í Nesjavallavirkjun en við endurtekna sýnatöku stóðust sýnin gæðakröfur.

Vatnsverndarsvæðin eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk, sjá viðauka. Til að minnka hættu á olíuslysi hafa Veitur tekið í notkun vetnisbíl í stað lekaskoðaðs díselbíls við eftirlitið.

Veitur áforma að auka vatnsvinnslu í Vatnsendakrikum í Heiðmörk.

Veitur hafa rannsakað örplast í neysluvatni í borholum og í dreifikerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Örlítið plast fannst í kerfinu og er uppruni óljós. Engin viðmiðunarmörk eru um örplast í neysluvatni. Unnið er að þróun söfnunar- og greiningaraðferða.

Þetta erum við
Björgvin Karlsson
Björgvin Karlsson
Sérfræðingur í túrbínuviðhaldi

Björgvin vélstjóri er sérfræðingur í túrbínuviðhaldi. Slíkir sérfræðingar eru mest í að vega og meta ástand búnaðarins sem færir okkur heita vatnið og rafmagnið frá virkjunum. Björgvin er heitur stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Arsenal en flestir vinnufélagarnir styðja Manchester United. Hann hefur þó í fullu té við þá þótt fleiri séu þegar kemur að því að hvetja sitt lið. Hann syngur í karlakórnum Stefni þar sem verið er að æfa Þrymskviðu og því vanur að beita röddinni af krafti.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi hefur aukist frá árinu 2015. Hlutur úrgangs úr hreinsistöðvum fráveitu er mestur eða um 65% af heildarmagni urðaðs úrgangs. Takmarkaður möguleiki er á því að stýra því hve mikill úrgangur af þessari gerð fellur til en séð er til þess að hann sé urðaður á viðurkenndum urðunarstöðum. Magn annars úrgangs ýmist jókst eða dróst saman. Í viðaukum má sjá hvernig úrgangur skiptist á milli úrgangsflokka, starfsstöðva og sveitarfélaga.

Flokkun úrgangs hjá samstæðu OR 2015-2018

Hverasvæði

Ljósmynd: Gretar Ívarsson

Samstæða OR starfar eftir umhverfis- og auðlindastefnu sem er skuldbinding OR um stöðugar umbætur í umhverfismálum. Hún byggir á fimm meginreglum sem eiga við allar starfseiningar: Ábyrga auðlindastýringu, gagnsemi sem felst í aðgangi að veitum fyrirtækisins, áhrif losunar vegna starfseminnar, áhrif í samfélaginu og starfsemi fyrirtækisins. Stefnan nýtist sem grundvöllur góðs samstarfs við hagsmunaaðila. Umhverfis- og auðlindastefnan byggir á gildum og heildarstefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Samstæða OR hefur skilgreint á þriðja tug þýðingarmikilla umhverfisþátta. Þættirnir eru skilgreindir til þess að nálgast megi umhverfismálin skipulega, með skýrum markmiðum og skilgreiningu ábyrgðar á að þeim sé náð.

E10 Sérstök umhverfisáhrif

Fjallað er um áhrif þeirra þýðingarmiklu umhverfisþátta sem samstæða OR hefur skilgreint með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í umhverfis- og auðlindastefnu fyrirtækisins.

Þar ber hæst vatnsvernd, ábyrga vinnslu úr lághita- og háhitasvæðum, losun brennisteinsvetnis, losun jarðhitavatns og nýja hreinsistöð fráveitu í Borgarnesi. Veitur hafa aukið eftirlit með neysluvatni í vatnsveitunni í kjölfar þess að örverur greindust í neysluvatnssýnum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig rannsaka Veitur örplast í neysluvatni og skólpi. Staða gufuforða í virkjunum Orku náttúrunnar hefur ekki verið jafn góð í langan tíma og rekstur lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun gengur áfram vel. Stöðin hreinsar um 75% af brennisteinsvetninu og um 35% af koltvíoxíðinu frá virkjuninni. Unnin hefur verið áætlun um sporlausa vinnslu í virkjunum á Hengilssvæðinu og sett markmið í fráveitu um að strendur borgarinnar verði ávallt hreinar. Þetta eru háleit markmið en gerleg.

Umhverfisslys við Andakílsárvirkjun

Lífríki í Andakílsá hefur tekið við sér eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. Samkvæmt áfanganiðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er enn nokkurt set í farveginum, einkum þar sem straumur en minnstur, en búsvæði gróðurs og dýra endurheimtist tiltölulega hratt. Hrygning í fyrrasumar virðist hafa tekist vel og mikill fjöldi eins árs laxaseiða fannst í ánni sumarið 2018. Árgangur laxaseiða, sem var eins árs þegar slysið varð, hefur orðið mjög illa úti en tveggja ára seiðum vegnar betur. Til að vega á móti þessum skörðum í stofninum hefur verið ákveðið að sleppa 30.000 seiðum í ána árið 2019 og 2020. Lagt er til að veiði hefjist á ný sumarið 2020. Orka náttúrunnar metur stöðuna með vísindafólki og hagsmunaaðilum til að ákveða framhald aðgerða, rannsókna og vöktunar. Orkustofnun sektaði Orku náttúrunnar um eina milljón króna vegna umhverfisslyssins.

Áformað er að fjarlægja set úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar haustið 2019. Orka náttúrunnar mun hafa samráð við hagsmunaaðila til að upplýsa um framvindu verkefnisins.

Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2018 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og flestum dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum. Veitur reka þrettán hitaveitur: eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi, sjá viðauka. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt. Eftirspurn er að aukast á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og er hún farin að nálgast þolmörk í heitavatnsforða. Þetta kallar á stækkun varmastöðvar á Hellisheiði sem áætlað er að verði gangsett veturinn 2019-2020. Ennfremur eru hafnar rannsóknir á möguleika þess að vinna heitt vatn úr lághitasvæði í Geldinganesi við Reykjavík. Auk þess er unnið að stækkun dreifikerfis heits vatns frá jarðvarmavirkjunum til að minnka þörf á vinnslu úr lághitasvæðum. Gangi þessi áform eftir og þau leiða til þess að hægt er að nýta jarðhitasvæði innan sjálfbærnimarka bendir allt til þess að hægt sé að viðhalda notkun úr lághitasvæðum höfuðborgarsvæðisins um fyrirsjáanlega framtíð, sjá viðauka.

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Vatns- og gufuöflun var betri í Hveragerði árið 2018 en árið 2017. Unnið er að tengingu borholna í Ölfusdal við veituna sem lýkur fyrrihluta árs 2019.

Þetta erum við
Sverrir Guðmundsson
Sverrir Guðmundsson
Fagstjóri vatnsveitu

Sverrir er rafmagnsverkfræðingur með framhaldsnám í tölvusjón og reiknilíkönum og starfar sem fagstjóri vatnsveitu. Rafmagn og vatn er yfirleitt ekki góð blanda en sérhæfinguna má nýta á ýmsum sviðum, eins og t.d. í jöklarannsóknum, sem hann gerði um árabil. Sverrir hefur þá áráttu að reyna sig við hluti sem hann er ekki góður í, og þá með misgóðum árangri. Þannig reyndi hann við lyftingar á sínum yngri árum sem gekk þokkalega og seinna við langhlaup með afleitum árangri.

Ábyrg umgengni og vinnsla úr háhitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Vinnslusvæði jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu og breytingar á yfirborðsjarðhita

Vinnslusvæði jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu og breytingar á yfirborðsjarðhita

Árið 2018 var orkuvinnsla á Nesjavöllum og á Hellisheiði í samræmi við nýtingarleyfi og markmið Orku náttúrunnar. Undanfarin ár hefur viðhald vinnslugetu virkjananna á Hengilssvæðinu verið eitt af mikilvægustu verkefnum fyrirtækisins. Tvær öflugar holur voru boraðar í Hverahlíð árið 2018 og tengdar við Hellisheiðarvirkjun og tvær holur voru boraðar á Nesjavöllum árið 2018 en ekki hafði verið borað þar síðan árið 2015. Í lok árs voru því báðar virkjanir reknar á fullum afköstum en sú hefur ekki verið raunin í nokkur ár. Staða gufuforða í virkjunum Orku náttúrunnar hefur ekki verið svona góð í langan tíma.

Vinnslugeta borholna í Hverahlíð er nú meiri en flutningsgeta Hverahlíðarveitu. Fylgst verður áfram með þróun svæðisins a.m.k. næstu fimm árin til að meta framleiðslugetu þess. Þrátt fyrir að nýjar virkjanir séu ekki á döfinni á Hengilssvæðinu er fyrirsjáanlegt að stækka þarf núverandi vinnslusvæði ef viðhalda á fullri vinnslu í Hellisheiðarvirkjun og í Nesjavallavirkjun til lengri tíma. Hefja þarf forrannsóknir á mögulegum vinnslusvæðum í tíma til að undirbyggja faglega ákvarðanatöku um framtíðarsýn orkuöflunar og til að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlindarinnar.

Orka náttúrunnar fylgist vel með niðurdrætti í Hverahlíð, í eldra vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar og á Nesjavöllum, sjá viðauka. Ennfremur er fylgst með virkni jarðhita á yfirborði sem getur breyst náttúrulega en einnig vegna jarðvarmavinnslu, sjá mynd.

Losun jarðhitavatns og eftirlit með grunnvatni

Árið 2018 var rúmlega 70% af jarðhitavatninu frá Hellisheiði skilað niður í niðurdælingarsvæðin við virkjunina, rúmlega 25% fór út um kæliturna sem gufa og restin, um 2%, fór á yfirfall, sjá viðauka. Árið 2018 var rúmlega 75% af jarðhitavatni frá Nesjavöllum skilað niður fyrir köld grunnvatnslög um niðurdælingarholur, sjá viðauka. Jarðhitavatni er dælt niður til að vernda yfirborðsvatn og grunnvatn því það er heitara en grunnvatn og með aðra efnasamsetningu. Annað markmið er að stýra niðurdælingu þannig að hún styðji við þrýsting í jarðhitageyminum sem stuðlar að aukinni sjálfbærni nýtingarinnar.

Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum til að uppfylla kröfur um niðurdælingu á Hellisheiði og Nesjavöllum með nokkrum árangri, sjá viðauka. Síðla árs 2018 hófst tilraunaniðurdæling á um 10% af jarðhitavatninu frá Nesjavöllum niður í jarðhitageyminn. Náið verður fylgst með áhrifum þess á jarðhitakerfið. Losun upphitaðs grunnvatns á yfirborð við Nesjavelli minnkaði töluvert árið 2018 en vatnshiti í lindum við Þingvallavatn er þó enn hár, sjá mynd. Fylgst hefur verið með lífríki í Þorsteinsvík við Þingvallavatn frá því áður en Nesjavallavirkjun var reist. Niðurstöður mælinga Náttúrufræðistofu Kópavogs sýna að snefilefni í jarðhitavatni hafa ekki tölfræðilega marktæk áhrif á lífríkið, sjá viðauka. Áfram verður unnið að úrbótum við niðurdælingu frá Hellisheiði árið 2019. Lausnir í niðurrennslismálum eru þolinmæðisverkefni og tíminn mun varpa ljósi á árangur.

Styrkur efna í vöktunarholum í nágrenni við báðar virkjanirnar er undir neysluvatnsmörkum, sjá viðauka.

Vatnshiti í Varmagjá við Þingvallavatn, þróun Nesjavallavirkjunar og mótvægisaðgerðir

Vatnshiti í Varmagjá við Þingvallavatn, þróun Nesjavallavirkjunar og mótvægisaðgerðir

Þetta erum við
Hólmfríður Haraldsdóttir
Hólmfríður Haraldsdóttir
Sérfræðingur í orkumiðlun

Hólmfríður stundaði nám í véla- og orkuverkfræði í Svíþjóð. Sem unglingur las hún mikið, helst sakamála- og spennusögur. Þekkingin sem hún fékk á þeim málaflokkum við lesturinn hefur þó lítið nýst henni í daglegu lífi enda tilgangurinn að æfa sig í sænskunni. Í starfi sínu hjá ON viðheldur hún raforkusamningum við stærri notendur og sér um upprunaábyrgðir vegna raforkuframleiðslu ON, svo fátt eitt sé nefnt. Hún er mjög ánægð með samstarfsfélagana og taka þau þátt, af miklu keppnisskapi, í Fantasy deildinni. Hólmfríður hefur átt góðu gengi að fagna í keppninni og vill hún þakka Manchester City uppeldinu í æsku fyrir frammistöðu sína.

Jarðskjálftar vegna losunar jarðhitavatns

Hengilssvæði

Ljósmynd: Gretar Ívarsson

Niðurdæling getur valdið skjálftavirkni, svokallaðri örvaðri skjálftavirkni eða gikkskjálftum. Það er vel þekkt á niðurdælingarsvæðum Hellisheiðarvirkjunar einkum á Húsmúlasvæðinu, sjá viðauka. Skjálftarnir verða þegar niðurdælingin losar spennu sem hlaðist hefur upp í jarðlögum vegna jarðskorpuhreyfinga. Orka náttúrunna vinnur eftir verklagi sem miðar að því að lágmarka hættu á örvuðum jarðskjálftum á svæðinu. Á seinni hluta árs 2018 voru sendar út tvær tilkynningar til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna breytinga á niðurdælingu.

OR er þáttakandi í þremur verkefnum á vegum Evrópusambandsins sem miða að því að auka þekkingu á samspili niðurdælingar jarðhitavökva og skjálftavirkni. Verkefnunum fylgir fjölgun jarðskjálftamæla á svæðinu, aukin vöktun og ítarlegri jarðskjálftarannsóknir.

Hreinsun brennisteinsvetnis og koltvíoxíðs

Líf á landi Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) í byggð fór aldrei yfir viðmiðunarmörk í Norðlingaholti, Lækjarbotnum og Hveragerði árið 2018, sjá viðauka. Árangur markvissrar hreinsunar og niðurdælingar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun var umtalsverður árið 2018, sjá mynd. Hlutfallsleg niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun var tæp 75%. Loftgæðamælistöð verður sett upp í Úlfarsársdal fyrrihluta árs 2019.

Losun brennisteinsvetnis frá virkjunum á Hengilssvæðinu hefur verið stærsta umhverfismál Orku náttúrunnar því brennisteinsvetni veldur lyktarmengun, tæringu á málmum og er hættulegt fólki í háum styrk. Losun brennisteinsvetnis frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun var samtals 9,5 þúsund tonn árið 2018, sjá viðauka. Þess ber að geta að skekkjumörk vegna losunar eru 5%.

Unnin hefur verið áætlun um sporlausa vinnslu í virkjunum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu. Setja þarf mikla þekkingu, tíma og fjármagn í verkefnið en möguleikar á tekjuöflun eru einnig fyrir hendi. Sporlaus vinnsla er háleitt markmið en gerlegt.

Hlutfallsleg hreinsun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2018

Hlutfallsleg hreinsun koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2018

Þetta erum við
Böðvar Ágúst Ársælsson
Böðvar Ágúst Ársælsson
Iðnaðarmaður ljósleiðarakerfis

Böðvar Ágúst gerir allt nema skúra hjá Gagnaveitunni að eigin sögn. Hann er iðnaðarmaður ljósleiðarakerfis; sér um rekstur þess og vinnudeginum ver hann úti á mörkinni í tengistöðvum við viðhald á búnaði eða hjá viðskiptavinum. Böðvar er mikið fyrir sveitalíf þrátt fyrir að vera alinn upp á mölinni. Hann var í sveit á sumrin sem barn og aðeins 15 ára gamall rak hann heilt kúabú í Dalasýslu í nokkrar vikur þegar bóndinn fór í veikindaleyfi. Hann vann hjá samkeppnisaðila Gagnaveitunnar í 10 ár en segir liðsheildina hjá OR og mötuneytið vera það besta við starfið.

Jarðhitagarður á Hellisheiði

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Yfirlit yfir núverandi starfsemi í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun

Í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun er í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus, leitað leiða til að auka fjölbreytta notkun á varma, rafmagni og jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Fjölbreytt notkun jarðhitans getur aukið hagkvæmni og eflt umhverfisvænan rekstur og nýsköpun í atvinnulífi. Yfirlit yfir núverandi starfsemi í Jarðhitagarði sést á mynd. Dæmi um bætta nýtingu auðlindastrauma er að skiljuvatn frá Hellisheiðarvirkjun er notað til framleiðslu á fæðubótarefni hjá fyrirtækinu GeoSilica og ýmis orkutengd aðföng eru nýtt fyrir ræktun smáþörunga hjá alþjóðlega sprotafyrirtækinu Algaennovation. Úr þörungunum verður framleitt fóður fyrir skepnur og hugsanlega til manneldis. Ýmis sprotafyrirtæki hafa sýnt áhuga á því að nýta koltvíoxíð og fleira frá virkjuninni. Strangir skilmálar eru settir vegna vatnsverndar, umgengni, nýtingu gróðurþekju og minnkun sjónrænna áhrifa.

Losun vegna fráveitu

Hreint vatn og salernisaðstaða Sjálfbærar borgir og samfélög Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð, sjá viðauka. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar.

Fráveitukort.gif

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík

Árið 2018 var ný hreinsistöð fráveitu gangsett í Borgarnesi. Á safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf nú aðgang að veitukerfi eða hreinsivirki í samræmi við lög og reglur. Markmið Veitna er að strendur borgarinnar verði ávallt hreinar. Breyta þarf hönnun fráveitukerfisins svo óhreinsað skólp sé ekki losað í sjó vegna bilana eða viðhalds. Niðurstöður mælinga á skólpmengun við jaðar þynningarsvæða í Faxaflóa árið 2018 sýna að fjöldi örvera var undir viðmiðunarmörkum þar en yfir mörkum fyrir saurkólígerla á nokkrum stöðum við strandlengjuna, sjá viðauka.

Örverur hafa mælst yfir mörkum úr útrennsli eða viðtaka lífrænu hreinsistöðvanna á Vesturlandi undanfarin ár. Reynt er að finna skýringar í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands.

Útstreymisbókhald hreinsistöðva er í viðaukum.

Veitur vinna að rannsókn á örplasti í skólpi í hreinsistöðinni í Klettagörðum. Plast fannst í nokkru magni en engin viðmiðunarmörk eru um örplast í skólpi. Áfram er unnið að rannsóknum.

Reykjavíkurborg og Veitur vinna að innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna. Fjöldi borga nýtir þessar lausnir til að takast á við aukna úrkomu vegna loftslagsbreytinga og til að hreinsa regnvatn af götum og vegum áður en það rennur út í ár og vötn, sjá viðauka.

Þetta erum við
Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir
Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir
Jarðfræðingur hjá Þróun

Doktor Sandra er með óbilandi áhuga á basalti. Hjá Þróun OR er hún í orkuöflun í háthita, forðamálum í lághita og bindur gas í grjót þess á milli. Í frítíma sínum hleypur hún á fjöll enda er þar að finna basalt í miklu magni sem e.t.v. nýtist í niðurdælingu á gasi í framtíðinni. Hún spilar á selló, m.a í sellóhópnum Öskju sem samanstendur af sellóspilandi jarðvísindafólki. Sandra er líka ættmóðir súrsins sem hún og aðrir súrdeigsunnendur Þróunar baka úr um helgar.

Landbætur á athafnasvæðum OR

Aðgerðir í loftslagsmálum Líf á landi Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða, sjá viðauka. Í viðauka er einnig birtur listi yfir tegundir fugla og plantna á válista sem hafa þar búsvæði. Lögð er áhersla á góðan frágang, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Gagnaveitu Reykjavíkur og OR. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR. Tæplega 4,5 hektarar voru ræktaðir upp með staðargróðri árið 2018 þar af 2,9 hektarar vegna framkvæmda og 1,6 hektarar vegna frekari landbóta, sjá viðauka. Gróðurþekju er haldið til haga og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs í framkvæmdum OR samstæðunnar á grónu landi.

OR hefur umsjón með um 110 km af merktum gönguleiðum á Hengilsvæðinu sem hafa látið verulega á sjá vegna fjölda ferðafólks. Ráðist var í lokanir á viðkvæmum svæðum og lagfæringar á gönguleiðum sumarið 2018, sjá myndir.

Upplifun útivistarfólks og ferðamanna á Henglinum er sú að svæðið sé náttúrulegt, kyrrt, aðgengilegt, fallegt og áhrifamikið. Afstaða til virkjana á svæðinu er frekar hlutlaus, sjá viðauka.

Stígagerð við Hellisheiðarvirkjun

Ljósmynd: Belinda Eir Engilbertsdóttir - Lagfæring göngustíga í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar.

Þetta erum við
Pétur Darri Sævarsson
Pétur Darri Sævarsson
Umsjónarmaður hugbúnaðar og umbótaverkefna

Pétur Darri vinnur á þjónustusviði en hann hefur gífurlegan áhuga á þjónustu og upplifun viðskiptavina af henni. Allan daginn leitar hann leiða til að gera þjónustuverið skilvirkara svo starfsfólk sé betur í stakk búið til að sinna viðskiptavinum. Þær leiðir þurfa ekki alltaf að vera flóknar, e.t.v. bara að ná að fækka músarsmellum starfsfólks í tölvukerfunum. Pétur Darri er faðir lítils drengs og forfallinn áhugamaður um fótbolta. Hann og hæstánægður með að í kjallaranum á Bæjarhálsi sé fúsballborð og finnst að taka eigi upp keppni í fúsball innanhúss.

Efnanotkun

Heilsa og vellíðan Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Helstu varasömu efnin í notkun hjá samstæðu OR eru asbest, grunnefni sem nýtt er í einangrunarfrauð, klór, sýrur og basar, suðugas og jarðhitagös, olíur og leysiefni. Árið 2018 var töluvert notað af skaðlegum efnum líkt og undanfarin ár. Þær umbætur sem ráðist hefur verið í vegna geymslu á varasömum efnum, flokkun og förgun þeirra hafa aukið vitund starfsfólks á mikilvægi þessa málaflokks. Árið 2018 voru haldnar vinnustofur um varasöm efni fyrir starfsfólk sem notar slík efni. Samstæða OR losar ekki ósoneyðandi efni vegna starfsemi sinnar. Gerð er grein fyrir flutningi nokkurra varasamra efna í viðauka.