sidenav arrow up
sidenav arrow down

Stjórnhættir

Stjórnhættir OR eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Um meginstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur gilda lög nr. 136/2013. Á árinu 2014 endurnýjuðu eigendur fyrirtækisins sameignarsamning um starfsemina. Þá var einnig endurskoðuð eigendastefna. Í þeim er kveðið á um stjórnhætti. Við gerð þessara skjala, samþykkta fyrir dótturfélög OR og starfsreglur fyrir allar stjórnir var tekið mið af þeim leiðbeiningum sem Viðskiptaráð vann í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq.

OR telur að stjórnarhættir fyrirtækisins uppfylli leiðbeiningarnar.

Eignarhald á OR

G1 Gegnsæi ákvarðana

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er skipuð sex mönnum. Fimm, þar á meðal formaður og varaformaður, eru kjörnir af borgarstjórn Reykjavíkur og einn af bæjarstjórn Akraness. Sveitarstjórn Borgarbyggðar tilnefnir áheyrnarfulltrúa í stjórn. Formaður stjórnar má ekki taka að sér önnur störf fyrir OR.

Stjórn ræður forstjóra fyrirtækisins, semur starfslýsingu hans og gengur frá starfslokum. Forstjóri annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins og fer með eignarhluti í dótturfélögum OR. Forstjóri OR má ekki vera í stjórn OR og stjórnarmenn í OR mega ekki sitja í stjórn dótturfélags. Snemma árs 2019 lét forstjóri OR af stjórnarsetu í tveimur dótturfélögum OR.

Kveðið er á um verkaskiptingu forstjóra og stjórnar í starfsreglum stjórnar og starfslýsingu forstjóra en forstjóri situr ekki í stjórnarnefndum.

G2 Gegnsæi í störfum stjórnar

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skipa þau (f.v.) Guðjón Viðar Guðjónsson, Hildur Björnsdóttir, Gylfi Magnússon, varaformaður, Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar, Kjartan Magnússon og Sigríður Rut Júlíusdóttir. Áheyrnarfulltrúi er Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.

Þessi eru varamenn: Auður Hermanndóttir, Margrét S. Björnsdóttir, Páll Gestsson, Katrín Atladóttir, Björn Gíslason og Geir Guðjónsson. Varaáheyrnarfulltrúi er Lilja Björg Ágústsdóttir.

Stjórn OR leggur áherslu á gegnsæi í störfum sínum og fundargerðir stjórnarfunda auk fundargagna, sem ekki ríkir um trúnaður, eru öllum aðgengilegar á vef fyrirtækisins. Í fundargerðirnar eru meðal annars skráðar allar ákvarðanir stjórnar og stjórnarmenn hafa rétt á að bóka stuttlega um afstöðu sína til einstakra mála.

Þetta erum við
María Dís Ásgeirsdóttir
María Dís Ásgeirsdóttir
Verkefnastjóri

María Dís hefur unnið við hönnun veitukerfa og verkefnastjórnun í fjölda ára, fyrst á verkfræðistofu og hjá veitum Oslóborgar. Hjá Veitum hefur hún umsjón með fjárfestingaverkefnum í framkvæmdum. María er byggingatæknifræðingur að mennt en hefur líka sótt alþjóðlegar sumarbúðir kommúnista í Austur Þýskalandi. Það gerði hún rétt fyrir fall múrsins þegar hún var 12 ára gömul, með Duran Duran klippingu og lítið farin að hugsa um stjórnmál. Hún hefur sömu áhugamál og aðrar fegurðardrottningar, þ.e. hestamennsku, hreyfingu og útivist.

G3 Hvatakerfi í launum

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Eigendastefna OR kveður á um að laun stjórnenda skuli standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs Orkuveitu Reykjavíkur skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði. Árlega endurskoðar starfskjaranefnd stjórnar OR laun forstjóra með tilliti til markmiða og mælikvarða fyrirtækisins. Engin bein tenging er á milli launa forstjóra eða annarra stjórnenda og tiltekinna mælikvarða í rekstrinum, fjárhagslegra eða annarra. Í starfsmannasamtölum, þar á meðal við stjórnendur hjá samstæðunni, er byggt á gildum samstæðunnar og frammistaða meðal annars metin út frá þeim og fleiri ófjárhagslegum þáttum. Gildin eru; framsýni, hagsýni og heiðarleiki.

Fjárhæð stjórnarlauna, launa forstjóra og framkvæmdastjóra innan samstæðu er tilgreind í ársreikningi OR.

G4 Vinnuréttur

Góð atvinna og hagvöxtur Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR á aðild að Samtökum atvinnulífsins í gegnum aðild sína að Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja. OR semur við verkalýðsfélög í samvinnu við SA. OR á ennfremur í ýmsum öðrum samskiptum við stéttarfélög. Starfsfólki er frjálst að vera í því stéttarfélagi sem það kýs eða standa utan stéttarfélags eftir því sem reglur vinnumarkaðarins mæla fyrir um.

Fyrirtækið gerir einstaklingsbundna ráðningarsamninga, byggða á kjarasamningum stéttarfélaga, við allt fastráðið starfsfólk. Í þeim er meðal annars kveðið á um laun. Verkkaup OR eru umfangsmikil af misstórum fyrirtækjum. Undir lok árs 2018 voru 20 manns við dagleg störf hjá OR samstæðunni sem verktakar. Fastráðið starfsfólk var á sama tíma 538. Verktakarnir voru því 3,7% af starfsmannafjölda.

Fjallað er um réttindi starfsfólks verktaka í kafla um samfélagsmál.

Aðild að stéttarfélagi

Þetta erum við
Ólafur Helgi Harðarson
Ólafur Helgi Harðarson
Rafvirki

Ólafur Helgi er sáttur í vinnunni. Starfið er áhugavert og krefjandi en hann sinnir eftirliti og viðhaldi í aðveitustöðvum sem og greiningum og prófunum á búnaði. Hann er menntaður rafvirki með iðnfræðipróf frá HR og kallast því rafiðnfræðingur. Hann hefur mest gaman af því að ferðast um landið og skoða sérstaka staði og eru skrítnar laugar þar efst á blaði. Fiskikar við heitavatnsuppsprettu á Snæfellsnesi stendur þar upp úr. Hann nýtur þess líka að ganga um í íslenskri náttúru og þá frekar um furðulegt láglendi en fjöll.

G5 Birgjamat

Heilsa og vellíðan Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Það er stefna OR að beita opnum útboðum við kaup á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum og að hagstæðasta tilboði sé tekið. Að öðrum kosti skal beita lokuðum útboðum, verðfyrirspurnum meðal sem flestra, beinum samningum eða beinum innkaupum. Hversu hagstæð tilboð eru er oft metið með tilliti til fleiri þátta en verðs. Þar á meðal eru öryggismál, umhverfismál og þá eru ákvæði í útboðsgögnum til að berjast gegn kennitöluflakki.

Kappkostað er að nýta vel aðkeypt efni og birgðir eða koma þeim í verð. Nýting á eldri birgðum var góð árið 2018 og lækkaði birgðastaða um 27% milli ára af þeim vörum sem eru eldri en tveggja ára.

OR hefur innleitt keðjuábyrgð í verksamningum í því skyni að standa vörð um réttindi starfsfólks verktaka og undirverktaka þeirra. Verktakamat er byggt á frammistöðu þeirra í öryggismálum, umhverfismálum, gæðum verks og gagnaskilum. Ef frammistaða í verktakamati er óviðunandi er viðskiptum hætt tímabundið.

Stuðst er við umhverfismerkingar í innkaupum á rekstrarvörum til dæmis pappír og ræstivörum. Um 55% af innkaupum ársins 2018 á ljósritunarpappír, umslögum, prentgripum, ræstiefni, ritföngum og prenthylkjum voru umhverfismerkt. Prentun og ljósritun er stýrt og hefur dregist saman á mann um 40% frá árinu 2015, sjá viðauka.

Samstæða OR hefur ekki skimað birgja eftir umhverfisvísum. Fyrirtækin hafa ekki undir höndum mat á mögulegri eða raunverulegri hættu á neikvæðum umhverfisáhrifum í aðfangakeðju þeirra eða viðbrögð við slíkum áhrifum.

Ekkert tilvik var á árinu 2018 um að tilboði væri hafnað vegna gruns um kennitöluflakk né vegna óviðunandi niðurstöðu úr verktakamati. Á árinu 2017 var tilboði í eitt verk hafnað í samræmi við aðgerðir OR gegn kennitöluflakki.

G6 Siðareglur

Heilsa og vellíðan Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Siðareglur OR byggja á heiðarleika, sem er eitt af gildum Orkuveitu Reykjavíkur. Siðareglurnar eru skráðar og opinberar og eiga að hjálpa starfsfólki að láta heiðarleika, virðingu og jafnrétti einkenna öll samskipti hvort sem er við viðskiptavini, samstarfsfólk, stjórn, verktaka eða aðra hagsmunaaðila. Þær eru ekki tæmandi og leysa þau sem þær ná til ekki undan þeirri ábyrgð að reiða sig á eigin samvisku þegar siðferðileg álitamál koma upp.

Siðareglur voru fyrst settar fyrir OR af stjórnendum árið 2000 og voru yfirfarnar, endurskoðaðar og samþykktar af stjórn OR á árinu 2017. Þær eru hluti starfsreglna stjórnar. Þær eru kynntar nýju starfsfólki og eru öllum aðgengilegar. Telji starfsmaður brotið gegn reglunum eða stendur frammi fyrir siðferðilegu álitamáli getur hann leitað til yfirmanns eða samstarfsmanns sem hann treystir. Telji starfsmaður brot á reglunum bitna á sér, svo sem vegna eineltis eða áreitni, getur hann einnig leitað beint til ytri ráðgjafa og við tekur skráð ferli, þar sem gætt er nafnleyndar, sé þess óskað.

Eftir úttekt innri endurskoðunar OR á árinu 2018 voru reglur um viðbrögð við áreiti á vinnustað uppfærðar til samræmis við gildandi reglugerð.

G7 Aðgerðir gegn spillingu og mútum

Hjá OR er skráð verklag um meðferð mála þegar ætla má að starfsmaður eða stjórnandi hafi brotið gegn reglum fyrirtækisins eða hafi orðið uppvís að sviksemi í starfi. Verklagsreglan er öllu starfsfólki aðgengileg. Vakni grunur um brot ber að tilkynna það næsta yfirmanni eða innri endurskoðanda fyrirtækisins sem ber að upplýsa um það en gæta trúnaðar við meðferð slíkra upplýsinga, þar með talið að gæta leyndar um nafn tilkynnanda.

Stjórnendur OR, framkvæmdastjórar og forstöðumenn bera ábyrgð á innra eftirliti hver á sínu sviði. Gæðamál bera ábyrgð á að innri eftirlitskerfi OR séu virk. Gæðakerfi OR njóta óháðrar vottunar ytri aðila. OR fylgir stöðlum Samtaka innri endurskoðenda um framkvæmd innri endurskoðunar. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gegnir hlutverki innri endurskoðanda OR. Innan OR starfar regluvörður sem hefur eftirlit með upplýsingagjöf til Kauphallar og Fjármálaeftirlits.

G8 Gegnsæi skatta og gjalda

Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR hefur eingöngu starfsemi á Íslandi og lýtur starfsemin því alfarið íslenskum skattalögum. Við lögboðna uppskiptingu OR, í ársbyrjun 2014, varð núverandi samstæðumynd til. Þrennt einkennir hana í skattalegu tilliti:

  • Móðurfélagið er sameignarfyrirtæki og greiðir hærri tekjuskatt en hlutafélög. Á móti eru arðgreiðslur til eigenda skattfrjálsar.
  • Umfangsmestu dótturfélögin – Veitur og Orka náttúrunnar – eru opinber hlutafélög sem eru samsköttuð í áhættuvarnaskyni.
  • Rekstur vatns- og fráveitu er í sameignarfyrirtæki en þessi skylduverkefni sveitarfélaga bera ekki tekjuskatt.

KPMG hefur reiknað út skattaspor OR samstæðunnar. Skattaspor OR samanstendur bæði af sköttum sem eru gjaldfærðir í rekstri félagsins og þeim sköttum sem félagið innheimtir og stendur skil á. Á árinu 2018 nam skattaspor OR samtals 6.838 mkr. Auk þess var greiddur virðisaukaskattur sem nam 2.264 mkr.

Skýrsla KPMG um skattasporið er í viðhengi.

Skattaspor OR samstæðunnar

G9 Upplýsingagjöf um sjálfbærni

Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Fjöldamargir þættir ráða því hvort starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna - Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur - er sjálfbær. Í þessari samþættu skýrslu er gerð grein fyrir þeim þáttum sem OR telur mikilvægasta. OR lítur því á þessa skýrslu sem árlega sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins. Á vefjum fyrirtækjanna er að finna ýmsar upplýsingar um umhverfismál, fjármál og starfsmannamál sem uppfærðar eru oftar en árlega.

Á árinu 2018 kom út skýrsla í kjölfar alþjóðlegrar úttektar á sjálfbærni Hellisheiðarvirkjunar. Úttektin er byggð á matslykli fyrir jarðgufuvirkjanir – Geothermal Sustainability Assessment Protocol (GSAP) – sem er í þróun á vegum íslenskra stjórnvalda og jarðgufufyrirtækjanna í landinu. Hellisheiðarvirkjun er fyrsta virkjunin í rekstri sem honum var beitt á.

Meginniðurstaða sjálfbærnimatsins var að Hellisheiðarvirkjun hefur lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mikilvæg jákvæð félagsleg og hagræn áhrif, einkum með vinnslu á hreinni og ódýrri raforku og heitu vatni til að mæta þörfinni á höfuðborgarsvæðinu. Þó leiddi matið í ljós frávik frá fyrirmyndarframmistöðu sem Orka náttúrunnar er að ráða bót á.

G10 Aðferð við skýrslugerð

Við gerð sjálfbærniuppgjörs OR er stuðst meðal annars við leiðbeiningar sem Nasdaq á Íslandi og Norðurlöndunum gáfu út í mars 2017. Leiðbeiningar Nasdaq byggja á ráðleggingum sem settar voru fram árið 2015 af Sameinuðu þjóðunum, Samtökum um sjálfbærar kauphallir (Stustainable Stock Exchange Initative) og vinnuhópi hjá Alþjóðasamtökum kauphalla (World Federation of Exchange). Einnig var bætt við tilvísunum í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar sem það á við, og tekið tillit til laga um breytingar á lögum um ársreikninga nr. 3/2006, með síðari breytingum (einföldun og innleiðing ársreikningatilskipunar 2013/34/ESB), nr. 73/2016.

Ritnefnd Ársskýrslu OR 2018: Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi OR, Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri OR, Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi og Davíð Örn Ólafsson, sérfræðingur í fjárstýringu og greiningum á fjármálasviði OR.

Vefun: Overcast.

Ljósmyndir í skýrslunni tók dr. Gretar Ívarsson, sérfræðingur í jarðfræðirannsóknum á þróunarsviði OR, nema annað sé tekið fram.

Þetta erum við
María Rán Ragnarsdóttir
María Rán Ragnarsdóttir
Afhendingastjóri ljósleiðarakerfis

María Rán Ragnarsdóttir lærði vélaverkfræði og er afhendingastjóri ljósleiðarakerfis. Hún ber ábyrgð á þjónustu til viðskiptavina, þ.e. að ljósleiðarabox þeirra séu tengd fljótt og vel. Starfið er fjölbreytt og ýmis verkefni tengd viðskiptavinum og stóru fjarskiptafélögunum eru á hennar borði. María Rán er hress og jákvæð og þegar hún er í húsi vita það allir. Hún er dellukelling og þessar vikurnar á Crossfit hug hennar allan. Hún er líka mikil keppnismanneskja og tekur ekki þátt nema til að vinna. Búist við að sjá hana á Crossfitleikum eldri borgara í framtíðinni, hún ætlar sér góðan tíma til að ná árangri í greininni.

G11 Áreiðanleiki

Samfélagslegir og stjórnháttaþættir þessarar ársskýrslu voru teknir út af Versa vottun ehf.

Umhverfisþættir skýrslunnar voru endurskoðaðir af VSÓ ráðgjöf.

Ytri fjárhagslegir endurskoðendur OR eru Grant & Thornton.