sidenav arrow up
sidenav arrow down

Loftslagsmál

Orkuveita Reykjavíkur er á meðal stærstu fyrirtækja landsins og frammistaða OR og dótturfélaga í loftslagsmálum skiptir því máli. Samstæða OR hefur það markmið að minnka kolefnisspor rekstursins um 60% frá 2015 til 2030.

Samstæða OR hefur lagt áherslu á að ná utan um og birta upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni, eins og fram kemur í köflum sem varða loftslagsmál. Birtir eru kolefnisvísar sem vonast er til að setji losun frá samstæðunni í áþreifanlegra og mælanlegra samhengi en áður.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR hefur sett sér það markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstrinum um 60% frá árinu 2015 til 2030 með því að draga úr beinni losun frá starfseminni með niðurdælingu og bindingu á koltvíoxíði í bergi og rafvæðingu bílaflota fyrirtækisins. Einnig er áformað að draga úr losun með hagnýtingu koltvíoxíðs. Útreikningar á losun eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol – Corporate Accounting and Reporting Standard.

Binding á koltvíoxíði í bergi við Hellisheiðarvirkjun, sem hófst um mitt ár 2014, vegur þyngst í að minnka kolefnisspor samstæðunnar. Árið 2018 var hlutfallsleg niðurdæling koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun tæp 35% af útblæstri virkjunarinnar. Í desember samþykkti framkvæmdastjórn að ráðast í að kolefnisjafna bílaflota samstæðunnar vegna ársins 2018 með endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs, sjá mynd.

Bein losun samstæðu OR, binding með landbótum og viðbótarlosun, nyti CarbFix tækni ekki við, 2015-2030

Þetta erum við
Unnur Jónsdóttir
Unnur Jónsdóttir
Sérfræðingur í vinnuverndarmálum

Unnur Jónsdóttir er hjúkrunarfræðingur sem hefur unnið að öryggis- og heilsumálum hjá OR samstæðunni í sex ár. Segja má að öryggisvitundin sé henni í blóð borin því Þórður afi hennar var Öryggismálastjóri ríkisins. Hún sinnir fjöldamörgum ólíkum verkefnum í starfi sínu sem allt miðar að því að bæta heilsu og öryggi samstarfsmanna sinna enda fátt mikilvægara. Unnur dundar við ýmislegt utan vinnu; hún ferðast til framandi landa, ræktar garðinn sinn, synina fjóra og fjölskyldur þeirra auk þess að vera ástríðufullur skósafnari. Hún er þó mikið í sömu skónum.

Loftslagsmarkmið samstæðu OR

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR rekur vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu, fráveitu og gagnaveitu fyrir stóran hluta þjóðarinnar og hefur lagt sig fram um að draga úr kolefnisspori veitnanna sem eru undirstaða sjálfbærs samfélags. Samstæða OR hefur sett sér það markmið að minnka losun koltvíoxíðs frá rekstrinum um 60% frá árinu 2015 til 2030. Sjá nánar um loftslagsmarkmið OR á mynd og hvernig til hefur tekist að ná þeim, sjá viðauka.

Loftslagsmarkmið ísl.png

E1 Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2018 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR um 43.000 tonn CO2 ígilda. Losunin er frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar vegna vinnslu á rafmagni og heitu vatni, vinnslu jarðvarma til húshitunar á lághitasvæðum Veitna, sem er metin nánast engin, frá HFC efnum í kerfi Veitna og frá bílaflota og húsnæði samstæðunnar. Umfang 2, óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir rafmagn inn á landsnetið og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Til að koma í veg fyrir tvítalningu er því engin losun tiltekin í umfangi 2. Umfang 3, óbein losun frá úrgangi vegna kjarnastarfsemi samstæðunnar, ferða starfsfólks í og úr vinnu og flugferða starfsfólks, var um 1.100 tonn CO2 ígilda. Losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR er innan við 1% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2016 (Umhverfisstofnun, 2018).

Bein og óbein losun samstæðu OR árið 2018

Umfang 1 - bein losun: Jarðgufuvirkjanir ON, aðveitu- og dreifikerfi Veitna, farartæki.

Umfang 2 - óbein losun: Orkunotkun þ.e. rafmagn og hiti til eigin nota og orkutöp í dreifikerfum. Fellur undir umfang 1 þar sem talið er fram fyrir OR samstæðu.

Umfang 3 - óbein losun: Úrgangur, flugferðir starfsfólks, ferðir starfsfólks í og úr vinnu.

E2 Kolefnislosun á framleidda einingu

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Kolefnislosun á hverja einingu í rekstri, t.d. tekna, framleiddar einingar o.s.frv. er stundum kölluð kolefniskræfni. Miðað við veltu og stærð húsnæðis hjá samstæðu OR hefur kolefnislosun samstæðunnar dregist saman frá árinu 2015.

Orka náttúrunnar framleiðir rafmagn til neytenda og heitt vatn sem selt er í heildsölu til Veitna. Kolefnisspor á framleidda einingu rafmagns og heits vatns við virkjun hjá Orku náttúrunnar hefur lækkað frá 2015. Veitur dreifa rafmagni og heitu vatni til neytenda vinna neysluvatn og dreifa því ásamt því að reka fráveitu. Hjá Veitum hefur kolefnisspor vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu lækkað frá árinu 2015. Kolefnisspor gagnaflutnings um ljósleiðara hjá Gagnaveitu Reykjavíkur er óbreytt, sjá töflu og mynd um kolefnisvísi (undir hnappinum Kolefnisspor) á framleidda einingu hjá samstæðu OR. Athugið að eining fyrir rafmagn og heitt vatn er í kWst, kalt vatn er í m3, fráveitu er í persónueiningum og gagnaflutning um ljósleiðara er í gígabitum.

*Kolefnisspor hefur verið metið u.þ.b. 0 gr/kWst
**Skv. National Inventory Report er vegið meðaltal losunar gróðurhúsalofttegunda á kWst af rafmagni framleiddu með vatnsafli og jarðvarma á Íslandi árið 2016 9,3 g. Fyrir vatnsafl er losun gróðurhúsalofttegunda á kWst rafmagns 1,5 g og fyrir jarðvarma 30 g.

Þetta erum við
Hendrik Tómasson
Hendrik Tómasson
Þróunarstjóri snjallkerfa

Hendrik ber virðulegan titil sem þýðir í raun að hann er nörd, með mikinn á huga á gervigreind og fjórðu iðnbyltingunni. Hann ætlar sér að fara með Veitur inn í snjalla framtíð. Menntun hans ber áhuga hans vitni, hann er með gráðu í hátækniverkfræði og meistaragráðu í rafmagnsverkfræði. Hendrik hefur ættartengsl við Veitur, afi hans var verktaki sem smíðaði megnið af þeim hitaveitutönkum sem Veitur nýta í dag.

E3 Bein og óbein orkunotkun eftir orkutegund

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn, úr jarðvarma og vatnsafli og notar sjálf um 9% af framleiddu rafmagni og um 1% af framleiddu heitu vatni. Jarðefnaeldsneyti, einkum díselolía er nýtt beint í tengslum við framkvæmdir og vegna reksturs samstæðu OR. Til að draga úr beinni orkunotkun vegna samgangna í tengslum við starfsemi samstæðu OR hefur til dæmis verið sett fram áætlun til ársins 2030 um endurnýjun bílaflotans með ökutækjum sem knúin eru loftslagsvænu eldsneyti því betur má ef duga skal, sjá viðauka. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ), sjá töflu.

Eigin notkun á rafmagni er einkum vegna vinnslu á heitu vatni, dælingar í fráveitu, heitu og köldu vatni og reksturs fasteigna. Eigin rafmagnsnotkun á stærð húsnæðis hefur almennt aukist nokkuð frá 2015, heitavatnsnotkun staðið í stað en orkunotkun á starfsmann hefur minnkað. Notkun jarðefnaeldsneytis á starfsmann var minni árið 2018 miðað við árið 2015 en notkun metans jókst, sjá töflu. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn til húshitunar, úr jarðvarma og vatnsafli og notar hluta þessarar orku í starfsemi sína. Helsti orkugjafi sem er nýttur í starfseminni er rafmagn og er um að ræða tæplega 100% endurnýjanlega orku. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

Hlutfall beinnar frumorkunotkunar (eigin notkun) samstæðu OR 2018

Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildar orkunotkun samstæðu OR 2018

Þetta erum við
Sigríður Guðmundsdóttir
Sigríður Guðmundsdóttir
Umsjónarmaður fasteigna

Sigríður er umsjónarmaður fasteigna. Í því starfi felst að sinna daglegum rekstri húsnæðis, samskipti við verktaka sem sinna viðhaldi og margt fleira. Sigríður hóf feril sinn hjá OR samstæðunni árið 2002 en hefur verið í húsvörslunni síðustu sex árin. Mikið af frístundum ver Sigríður á sælureit í Borgarfirði þar sem hún er með sumarbústað. Þar eru verkefnin ærin og nýtir hún reynsluna af starfinu í þau. Sigríður á sínar 15 mínutur af frægð en birst hefur mynd af bakhluta hennar í mest lesna dagblaði landsins.

Fyrir hvert MJ sem samstæða OR nýtir af óendurnýjanlegri orku notar samstæða OR um 870 MJ af endurnýjanlegri orku.

Leirhver

Ljósmynd: Gretar Ívarsson

Samgöngur eru ein aðaluppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi auk þess að hafa neikvæð áhrif á loftgæði og hljóðvist. OR og dótturfélögin hafa sett sér metnaðarfull loftslagsmarkmið, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 60% til ársins 2030. Vegna eðlis starfseminnar geta þau líka haft áhrif á kolefnisspor annarra, beint og óbeint. Uppbygging Orku náttúrunnar á hlöðum með hraðhleðslum meðfram þjóðvegum og í þéttbýli gerir rafbíla að raunverulegum valkosti fyrir fólk og fyrirtæki. Orka náttúrunnar er í forystu uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi. Mikill kraftur var í uppbyggingu á árinu, sjá mynd. Í árslok 2018 var fimmtugasta hlaðan opnuð við Geysi í Haukadal.

Veitur undirbúa að snjallvæða mæla svo mögulegt verði að hafa áhrif á notkunarmynstur hleðslna fyrir rafbíla með verðstýringu en einnig með því að úthluta hleðslunni þeirri orku sem umfram er í kerfinu á hverjum tíma og þegar önnur notkun er lítil.

Fjöldi rafbíla á Íslandi og ON hlaðanna

OR samstæðan hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslagsmála undanfarinn áratug. Minni losun koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun með CarbFix og SulFix niðurdælingaraðferðinni og orkuskipti í samgöngum eru skýr dæmi um það. Samstarf atvinnulífs og háskólasamfélagsins er oftar en ekki forsenda þess að hugmyndir geti þróast yfir í raunveruleg verkefni sem nýtast atvinnulífinu.

Hvatar eins og styrkir stjórnvalda til atvinnulífsins og skattaívilnanir ýta undir þróun loftslagsvænnar tækni. Reynsla OR sýnir að styrkir og ívilnanir af þessi tagi hvetja starfsfólk og samstarfsaðila innanlands og erlendis til nýsköpunarverkefna á þessu sviði. Sjá að neðan dæmi um slík verkefni sem eru hafin hjá OR samstæðunni og vonir bundnar við og sjá nánar í viðauka.

  • Sporlaus vinnsla jarðhita
  • Tilraun til að fjarlægja koltvíoxíð varanlega úr andrúmslofti á Hellisheiði
  • Tilraun með framleiðslu á vetni sem orkugjafa á Hellisheiði
  • Orkuskipti í samgöngum á Íslandi
  • Örvun á jarðhitaholu í Geldinganesi