sidenav arrow up
sidenav arrow down

Samfélag

OR, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur gegna því samfélagslega hlutverki að fólk njóti vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu. Veigamesta samfélagslega ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur felst í því að þessi grunnþjónusta sé áreiðanlega fyrir hendi og ánægja sé meðal viðskiptavina með þjónustuna. Það skiptir líka máli hvernig þjónustan er veitt.

OR vill vera eftirsóknarverður vinnustaður og lítur svo á að hæft og ánægt starfsfólk sé forsenda þess að markmiðum verði náð. Á íslenskan mælikvarða er OR samstæðan stór og því gætir áhrifa starfshátta hennar víða um samfélagið. OR vill vera til fyrirmyndar og leitar stöðugra úrbóta við að rækja samfélagslega ábyrgð sína.

Ánægja viðskiptavina 2017-2018

Fyrirtækin innan samstæðunnar fylgjast grannt með ánægju viðskiptavina með því að gera reglubundnar þjónustukannanir. Niðurstaða þeirra myndar vísitölu sem hér er sýnd fyrir hvert dótturfyrirtækjanna þriggja.

Þjónustuöryggi veitnanna

Útreikningur á afhendingaröryggi er byggður á aðferð sem lengi hefur verið við lýði hjá rafveitunum. Hún byggist á því að samanlögð lengd truflunar hjá hverjum notanda sem fyrir henni verður er deilt niður á alla viðskiptavini hverrar veitu. Veitur tóku þessa aðferð upp fyrir hitaveitu árið 2015 og fyrir vatnsveitu 2016.

Starfsánægja

OR og dótturfélagögin hafa gengið í gegnum miklar breytingar síðustu ár. Ánægja starfsfólks samkvæmt reglubundnum vinnustaðargreiningum hefur vaxið merkjanlega á þessum umbrotatímum.

S1 Launahlutfall forstjóra

Stjórn OR ræður forstjóra fyrirtækisins, semur starfslýsingu hans og ákveður starfskjör. Stjórn tekur mið af ákvæði eigendastefnu OR að laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Starfskjaranefnd OR endurskoðar laun forstjóra árlega með tilliti til markmiða og mælikvarða fyrirtækisins.

Launahlutfall forstjóra er reiknað sem heildarlaunagreiðslur forstjóra deilt með miðgildi launa fastráðinna starfsmanna innan samstæðunnar.

Launahlutfall forstjóra

S2 Kynbundinn launamunur

Jafnrétti kynjanna Góð atvinna og hagvöxtur Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Orkuveita Reykjavíkur leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hlaut Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2014 og Hvatningarverðlaun jafnréttismála frá Samtökum atvinnulífsins 2015. OR er aðili að Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á árinu 2017 tók OR í notkun nýtt líkan sem greinir áhrif hverrar einustu launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Með því átti fyrirtækið auðveldara með að útrýma kynbundnum launamun, sem tókst í árslok 2017.

Jafnlaunakerfi OR hlaut jafnlaunavottun á árinu 2018. Með þeirri vottun er staðfest að þau sjónarmið sem OR leggur til grundvallar við ákvörðun launa og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar á grundvelli líkansins uppfylla ákvæði laga nr. 56/2017 um jafnlaunavottun og mismuni starfsfólki ekki á grundvelli kyns þess.

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR 2006-2018

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR eftir mánuðum 2018

Í línuritunum hér að ofan tákna tölur hærri en 0 launamun körlum í hag og lægri en 0 launamun konum í hag. Um mitt ár 2017 tók OR upp mánaðarlegar mælingar á óútskýrðum kynbundnum launamun hjá fyrirtækinu.

S3 Starfsmannavelta

OR fylgist með starfsmannaveltu hjá samstæðunni meðal annars eftir aldri og kyni. Tengsl eru á milli efnahagsástands og starfsmannaveltu. Starfsmannavelta minnkaði nokkuð frá fyrra ári og svo vildi til að hún var hin sama meðal karla og kvenna.

Starfsmannavelta, allir sem hætta

Starfsmannavelta, hætta að eigin ósk

S4 Jafnræði

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR er kynjaskiptur vinnustaður og unnið er að því að fjölga konum meðal iðnaðarmanna og sérfræðinga og körlum meðal skrifstofufólks. Samkvæmt úttekt Ernst & Young í maí 2017 eru áhrif kvenna innan orkugeirans mest hjá OR samstæðunni. OR hefur ekki tölur yfir kynjaskiptingu meðal verktaka.

Allt frá árinu 2015 hafa markviss skref verið stigin til að stytta reglubundinn vinnutíma starfsfólks. Langur vinnutími, sérstaklega meðal karla, gerði þeim óhægt um að taka þátt í fjölskyldulífi. Undir lok árs 2017 var stigið stórt skref í þessa veru hjá Veitum og í apríl í virkjanarekstri Orku náttúrunnar. Fyrirtækið kom á móts við starfsfólk vegna tekjuskerðingar vegna styttri vinnutíma. OR merkir fjölgun umsókna um störfin vegna breytinganna.

Kynjahlutfall eftir starfaflokkum

Þetta erum við
Rebekka Hlín Rúnarsdóttir
Rebekka Hlín Rúnarsdóttir
Starfsmaður Jarðhitasýningar

Rebekka Hlín er með meistaragráðu í jarðfræði og er sérhæfð örsteingervingum og fornloftslagsfræðum. Á Jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun fræðir hún gesti og gangandi um nýtingu jarðhitans. Erlent ferðafólk er þar í meirihluta og veit það oft minna en ekkert um málið og nýtur Rebekka sín í hlutverki fræðarans þótt ekki hafi það verið kennt í jarðfræðinni. Í frítíma sínum er Rebekka viðloðandi kabarett- og sirkussenuna og dansar og jögglar af miklum móð. Hún stundar líka nám í bragfræði og semur ljóð undir hefðbundnum íslenskum braghætti.

S5 Hlutfall tímabundinna ráðninga

Menntun fyrir alla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Löng hefð er fyrir því hjá veitufyrirtækjunum að ráða ungmenni til sumarstarfa og eru þau mikill meirihluti tímabundinna ráðninga. Á árinu 2018 fjölgaði umtalsvert ráðningum starfsfólks til annarra tímabundinna starfa. OR og dótturfyrirtækin kaupa að mikla vinnu frá stórum fyrirtækjum á borð við verkfræðistofur og framkvæmdaverktaka. Sumt starfsfólk stærri og smærri verktaka vinnur að verulegu leyti fyrir OR eða dótturfyrirtæki. Sá hópur hefur ekki verið skilgreindur og OR hefur ekki tölulegar upplýsingar um samsetningu þessa hóps.

Tímabundnar ráðningar

Kynjaskipting nýrra fastráðninga

S6 Jafnréttisstefna

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefnan er skuldbinding Orkuveitu Reykjavíkur um stöðugar umbætur í jafnréttismálum. OR leggur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til grundvallar jafnréttisstefnu sinni. Á árinu 2018 var meðal annars áfram unnið að verkefninu Iðnir og tækni með strákum og stelpum úr Árbæjarskóla, haldnir voru samráðsfundir og vinnustofur með starfsfólki þar sem komu fram gagnlegar ábendingar um framkvæmd þeirra áhersla sem unnið er eftir í jafnréttismálum. Jafnréttisnefndir eru starfandi innan allra fyrirtækjanna í samstæðu OR og vinnur hver nefnd eftir framkvæmdaáætlun og er það á ábyrgð æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis að hún sé í samræmi við Jafnréttisstefnu OR, sem samþykkt er af stjórn.

S7 Heilsa og öryggi

H-tala er alþjóðleg mælieining fyrir tíðni vinnuslysa. Hún er reiknuð sem fjöldi slysa á hverjar milljón unnar vinnustundir hjá viðkomandi fyrirtæki. Talin eru slys sem leiða til a.m.k. eins dags fjarveru frá vinnu. Þau voru sex árið 2018 hjá OR samstæðunni og unnar vinnustundir voru 982.074.

Fjarveruslys á hverja milljón vinnustunda

OR lítur svo á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi starfsfólk við framkvæmd þess. Stefna OR í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum (ÖHV-stefna) var endurskoðuð af stjórn á árinu 2018. Stefnt er að slysalausum vinnustað. Það markmið náðist ekki árið 2018. OR gerir skýrar kröfur um öryggismál í öllum útboðum og þá kröfu til verktaka í framkvæmdaverkum að öryggisreglum fyrir verktaka sé fylgt. Þá hefur OR gefið út Öryggishandbók sem hefur staðið starfsfólki OR og verktökum til reiðu um árabil. Gerð er krafa um að starfsmenn verktaka sæki viðurkennt námskeið í öryggismálum. OR starfrækir tilkynningagrunn sem starfsfólk skráir í hættur. Skráningarnar eru grunnur umbótastarfs í öryggis- og heilsumálum og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Við verkkaup er eftirlit með öryggisþáttum óaðskiljanlegur hluti verkeftirlits. Starfsemi allra fyrirtækja í samstæðu OR nýtur óháðrar vottunar samkvæmt staðlinum OHSAS 18001. Á árinu 2018 var ákveðið að taka upp alþjóðlega staðalinn ISO 45001. Það er nýr staðall sem er byggður upp með svipuðum hætti og aðrir ISO-staðlar og með upptöku hans eykst samræmi í gæðastarfi OR-samstæðunnar.

Reglubundin námskeið í öryggismálum fyrir starfsfólk eru:

 • Grunnnámskeið í ÖHV-málum
 • Fallvarnanámskeið
 • Lokuð rými
 • Skyndihjálp
 • TETRA
 • Varasöm efni
 • Öryggisstjórnunarkerfi rafmagns
 • Háhitanámskeið
 • Hættur af háspennu
 • Ljósbogavarnir
 • Áhættumat
Þetta erum við
Elín Margrét Jóhannsdóttir
Elín Margrét Jóhannsdóttir
Framreiðslumeistari

Elín Margrét, eða Magga eins og hún er alltaf kölluð, er gleðipinni sem kann að njóta lífsins. Hún er framreiðslumaður og þjónustar starfsfólk og gesti. Hún er reynd í faginu, hefur starfað við þjónustustörf síðan hún var 16 ára og er, auk þess að vera lærður þjónn, húsmæðraskólagengin. Hjá OR er mikið um fundi, kynningar og fleiri samkomur og Magga leggur metnað í að taka vel á móti fólki. Hestamennska er aðaláhugamál Möggu og hestaferðir um landið eru hennar ær og kýr. Það er mottó hjá Möggu að vera ávallt vel til höfð, hún fer ekki út í búð án þess að setja á sig varalit.

S8 Heilsuvernd

Heilsa og vellíðan Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Veikindi starfsfólks

OR hefur stefnu í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum (ÖHV-stefnu) sem er reglulega rýnd af stjórn OR. Kynferðislegt og kynbundið áreiti á vinnustöðum er ekki eingöngu mannréttindamál heldur einnig heilsufarsmál. Þolendur slíkrar framkomu fá gjarna andleg einkenni tengd framkomunni. Í kjölfar #metoo byltingarinnar, sem hófst á árinu 2018, var efnt til vinnustofa með þátttöku hvers einasta starfsmanns. Þar var varpað ljósi á vandann og í umræðum starfsfólks var því betur gerð grein fyrir því hvernig bera mætti kennsl á hann.

Líkamsræktaraðstaða er fyrir hendi á aðalstarfsstöð OR og getur starfsfólk sótt líkamsrækt allt að tveimur klukkustundum í viku á vinnutíma. Áhersla er lögð á að starfsfólk nýti sér aðstöðuna og á meðal annarra tilboða sem starfsfólki standa til boða eru:

 • Heilsufarsmælingar á 1 – 2 ára fresti
 • Bólusetningar
 • Líkamsbeiting við vinnu
 • Crossfit
 • Styrktarleikfimi
 • Jóga
 • Núvitundarþjálfun
 • Fyrirlestrar um heilsutengd málefni
 • Þátttaka í íþróttaviðburðum s.s. Hjólað í vinnuna og Lífshlaupinu.

S9 Barna- og nauðungarvinna

Menntun fyrir alla Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR kappkostar að starfa í samræmi við íslenska vinnulöggjöf og stefna fyrirtækisins í ÖHV-málum og starfskjaramálum gengur lengra en löggjöfin á þessum sviðum. OR gerir sér grein fyrir hættu á því að verktakar á vegum OR eða undirverktakar þeirra fylgi ekki reglum. Í því skyni hefur OR meðal annars;

 • sett inn heimildarákvæði um riftun samninga við verktaka sem verða uppvísir að brotum á reglum íslensks vinnumarkaðar,
 • gert kröfu um að reikningar vegna tiltekinnar aðkeyptrar vinnu megi ekki vera fyrir lengri tíma en rúma sjö tíma á sólarhring nema með leyfi frá OR (slíkt leyfi hefur ekki verið veitt) og
 • gert kröfu í verksamningum um að launagreiðslur og tryggingar verktaka og undirverktaka þeirra séu í samræmi við íslensk lög.

Ekkert tilvik var um það á árinu 2018 að grípa þyrfti til ráðstafana samkvæmt þessum ákvæðum.

Þar sem alþjóðlegt vottunarkerfi er ekki fyrir hendi vegna barna- og nauðungarvinnu á OR erfitt með að staðfesta að slíkt fari ekki fram innan allrar virðiskeðju fyrirtækisins, t.d. í kaupum á vöru, en riftunarákvæði eru í öllum útboðsgögnum OR verði uppvíst um slíkt.

S10 Mannréttindi

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefna OR tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Vorið 2018 gekkst OR samstæðan fyrir vinnustofum með skylduþátttöku alls starfsfólks um #metoo byltinguna og merkingu hennar fyrir vinnustaðarmenningu OR samstæðunnar.

S11 Mannréttindabrot

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR fylgist náið með þróun mála sem varða aðbúnað á vinnustað og menningu. Vinnustaðurinn er kynskiptur að verulegu leyti og brugðist er við kvörtunum um áreitni, ofbeldi eða einelti samkvæmt skráðu verklagi. Í vinnustaðargreiningum, sem gerðar eru á hverju ári, er spurt um einelti og kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Þátttaka í þessum könnunum er jafnan meiri en 95% og svör eru ekki rekjanleg.

Hlutfall starfsfólks sem segist hafa orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni

Á árinu 2018 komu fram ásakanir um kynbundna áreitni og óviðeigandi framkomu af hálfu stjórnanda innan samstæðu OR og hlutu þær mikla opinbera umræðu. Stjórn OR ákvað að kalla eftir úttekt á ásökununum, uppsögnum tveggja stjórnenda innan samstæðunnar og vinnustaðarmenningu.

Úttektin leiddi í ljós að vinnustaðarmenning innan OR er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði, tíðni ofbeldis minna og uppsagnirnar réttmætar. Hún leiddi einnig í ljós galla á verklagi. Annars vegar skorti á að skráðu verklagi væri fylgt að fullu og hinsvegar að verklagið hefði verið uppfært til samræmis við breytingar á reglugerð. Úr þessu var bætt fyrir lok ársins.

Umfang eineltis og kynferðislegrar áreitni mældist svipað árið 2018 og fyrra ár.

S12 Fjölbreytni stjórna

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Innan samstæðu OR eru starfandi fimm félög sem lúta sérstakri stjórn. Stjórnarmenn móðurfélagsins, sem jafnframt skipa stjórn OR Eigna, skulu m.a. hafa þekkingu og reynslu sem hæfir þeirri ábyrgð sem stjórnarsetunni fylgir. Samsvarandi kröfur eru gerðar um setu í stjórn dótturfélaga. Í stjórnum dótturfélaga skulu þrír fulltrúar vera starfsmenn OR, þar af einn úr stjórnendahópi og skal hann vera formaður. Hjá ON, Veitum og GR eru tveir utanaðkomandi sérfræðingar á starfssviði viðkomandi fyrirtækis í stjórn. Snemma árs 2019 lét forstjóri OR af stjórnarsetu í tveimur dótturfélögum í framhaldi af ábendingum frá innri endurskoðun.

Konur höfðu verið í meirihluta stjórnarmanna OR frá árinu 2014 en hlutur kynjanna er jafn eftir stjórnarkjör 2018.

Stjórnarsæti innan samstæðunnar eru alls 27. 13 eru skipuð konum og 14 körlum.

Kynjaskipting í stjórnum innan OR samstæðunnar

Stjórnarmenn óháðir félaginu eða eigendum þess

Umbætur í innheimtu

Á undanförnum árum hefur OR unnið markvisst að umbótum á innheimtu viðskiptakrafna. OR sér um útgáfu og innheimtu reikninga fyrir öll fyrirtækin í samstæðunni. Útsendir reikningar voru 5,3 milljónir á árinu 2018 í 1,7 milljón krafna. 74% krafnanna voru sendar viðskiptavinum rafrænt á síðasta ári og fer sú tala stöðugt hækkandi.

Áhersla OR er á að hjálpa fólki sem lendir í vanskilum út úr þeim. Úrræðum þjónustufulltrúa til að leysa úr málum hefur verið fjölgað og skerpt hefur verið á innheimtuferlinu öllu.

Fjöldi lokana 2006-2018

Þetta erum við
Ásgeir Helgason
Ásgeir Helgason
Verkstjóri

Ásgeir stýrir götuljósahópunum hjá ON. Hefðbundinn vinnudagur hjá Ásgeiri hefst á kaffisopa og svo sýslar hann í kringum götuljósaflokkana það sem eftir lifir dags. Þrátt fyrir að vera rafveituvirki að mennt ætlaði Ásgeir aldrei í rafmagnið. Hann nam trésmíði í einn vetur og ætlaði svo í húsgagnasmíði. Þar lenti hann hins vegar á biðlista og fór að vinna hjá Rafveitunni á meðan hann beið eftir að komast inn. Hann bíður enn eftir að röðin komi að honum, 40 árum síðar en kvartar ekki þar sem biðin hefur verið bærileg með öllu því góða fólki sem hann vinnur með.

Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

 • forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
 • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og
 • að Gagnaveita Reykjavíkur er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.

OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.

Árlega heldur OR samstæðan Vísindadag, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt. Nokkrir starfsmenn samstæðunnar kenna reglulega við háskóla og orkuskóla hér á landi og halda erindi á fagráðstefnum á Íslandi og erlendis.

Sá fróðleikur sem hefur víðast ratað er vafalaust sú þekking sem vísindafólk OR hefur aflað í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna um bindingu jarðhitalofttegunda í basalti. Fjöldamargir mjög útbreiddir fjölmiðlar í heiminum hafa fjallað um verkefni OR og ON við Hellisheiðarvirkjun, sem þykir einstakt.

Persónuvernd

Um mitt ár 2018 gengu í gildi ný lög um meðferð persónupplýsinga. OR og dótturfyrirtækin eiga í viðskiptum og öðrum samskiptum við mjög margt fólk og því áríðandi að verklag fyrirtækjanna væri í fullu samræmi við auknar kröfur um vörslu og meðferð upplýsinga sem fyrirtækið þarf að hafa vegna þessara samskipta. Undirbúningur að innleiðingu löggjafarinnar í starfsemi OR hófst á árinu 2016. Á árinu 2018 lauk innleiðingarferlinu með samþykkt persónuverndarstefnu í fyrirtækjunum innan samstæðunnar. Áður hafði farið fram víðtæk endurskoðun á verklagi og námskeiðshald fyrir nánast allt starfsfólk samstæðunnar.

Erindi til þjónustuvers

Árið 2018 voru skráð tæplega 140 þúsund erindi til sameiginlegs þjónustuvers OR, Veitna, Orku náttúrunnar og Ljósleiðarans. Flest voru frá viðskiptavinum sem voru að skila álestri sjálfir og þar á eftir komu fyrirspurnir og önnur erindi vegna reikninga. Í skífuritinu sést skipting erindanna eftir málaflokkum og í viðhengi að neðan er sérstök grein gerð fyrir ábendingum og kvörtunum vegna umhverfismála. Þar er líka sagt frá tilkynningum til leyfisveitenda og tilefnum þeirra. Samstarf við leyfisveitendur, hagsmunaaðila og viðskiptavini er starfsfólki samstæðu OR mikilvægt því slík samvinna beinir athygli og áhersluatriðum að því sem skiptir fólk mestu máli. Dæmi um slíkt eru reglubundnir fundir með leyfisveitendum og miðlun upplýsinga frá OR samstæðunni á samfélagsmiðlum.

Efni erinda til þjónustuvers