sidenav arrow up
sidenav arrow down

Fjárhagur

Árið 2018 var áframhaldandi stöðugleiki í rekstri og afkomu samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Traust tök eru á fjárfestingum og rekstrargjöldum.

OR var virkt á skuldabréfamarkaði á árinu og undirbjó útgáfu grænna skuldabréfa. Fyrsta opna útboð slíkra bréfa hér á landi var á vegum OR snemma árs 2019. Matsfyrirtækin Moody's og Fitch hækkuðu lánshæfiseinkunnir OR snemma árs 2018.

Hagsýni er eitt gilda OR og snýr það sérstaklega að fjármálum fyrirtækisins. Unnið er eftir fjárhagslegum markmiðum sem stuðla að því að OR og dótturfyrirtækin;

  • búi við traustan fjárhag,
  • séu rekin með viðunandi áhættu,
  • bjóði sanngjarnt verð fyrir þjónustuna,
  • geti greitt eigendum arð af eigum sínum.

Orkuveita Reykjavíkur, sem er að öllu leyti í eigu sveitarfélaga, lítur svo á að fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins styðji almennt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.

Tekjur, gjöld og afkoma

Mikill stöðugleiki einkennir helstu stærðir í rekstri OR síðustu ár. Tekjuaukinn skýrist einkum af aukinni sölu en gjaldskrár Veitna fyrir kalt vatn og rafmagnsdreifingu lækkuðu á árinu 2018.

EBITDA stendur fyrir framlegð rekstursins án fjármagnsliða, afskrifta, skatta og endurmats eigna. EBIT er rekstrarafkoman án fjármagnsliða og skattgreiðslna.

Tekjur, gjöld, EBITDA og EBIT

EBITDA framlegð

Framlegð reksturs OR samstæðunnar hefur verið stöðug og góð síðustu ár. Framlegðin þarf meðal annars að standa undir fjárfestingum fyrirtækjanna í samstæðu OR. Reksturinn krefst verulegra fjárfestinga til að halda við veitukerfum og virkjunum, sinna nýjum viðskiptavinum og mæta auknum kröfum sem til rekstursins eru gerðar. Hér er framlegðin sýnd sem hlutfall af heildartekjum.

EBITDA framlegð

Vaxtaþekja

Vaxtaþekjan segir til um hversu fyrirtækið er fært um að standa undir vaxtakostnaði af lánum sem á því hvíla. Eigendur OR hafa sett það skilyrði fyrir arðgreiðslu til þeirra að handbært fé frá rekstrinum að viðbættum vaxtagjöldunum séu að minnsta kosti 3,5 sinnum hærri en vaxtagjöld. OR var undir því markmiði rétt eftir hrun en yfir því allt frá árinu 2010.

Vaxtaþekja

Nettó skuldir

Þyngstur var skuldabaggi OR í árslok 2009. Þá námu nettóskuldirnar 226,4 milljörðum króna . Í árslok 2018 höfðu þær verið greiddar niður um 93 milljarða króna.

Nettóskuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnum vaxtaberandi eignum.

Nettó skuldir

Nettó skuldir / Handbært fé frá rekstri

Mælikvarðinn sýnir hlutfallið milli nettó skulda og handbærs fjár í lok árs. Hann segir hversu mörg ár það tæki að greiða niður nettó skuldir með handbæru fé væri það einungis nýtt til þess.

Nettó skuldir / Handbært fé frá rekstri

Arðsemi fjármagns

Í eigendastefnu OR er kveðið á um innleiðingu mælikvarða sem sýni arðsemi þess fjármagns sem eigendur hafa bundið í rekstrinum (Return On Capital Employed). Hún skal að lágmarki vera umfram fjármagnskostnað fyrirtækisins að viðbættu eðlilegu áhættuálagi.

Í október 2018 samþykkti stjórn OR arðsemisstefnu og var hún staðfest á eigendafundi í nóvember 2018.

Arðsemi fjármagns (ROCE)

Þetta erum við
Kristinn Rafnsson
Kristinn Rafnsson
Sérfræðingur í virkjanarekstri

Kristinn öðlaðist þennan fína titil með löngum starfsaldri í bransanum að loknu vélvirkja- og vélstjóranámi. Hann er á réttum stað í lífinu því honum finnst betra að stýra vélum en fólki. Kristinn tók þátt í uppbyggingu Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunar og segir það hafa verið mjög lærdómsríkt og það skemmtilegasta sem hann hefur gert á starfsævinni. Í frítíma sínum er hann á kafi í félagsmálum tengdum íþróttum enda gömul handboltakempa úr Stjörnunni í Garðabæ. Þar skaut hann boltanum í markið en skýtur nú annars konar skotum því hann á fimm byssur og er í stjórn skotfélags.

Veltufjárhlutfall

Aðgerðir undanfarinna ára til að styrkja sjóðstöðu fyrirtækisins - Planið - hafa bætt veltufjárhlutfallið og lausafjárstaðan er nú traust. Eitt skilyrðanna fyrir arðgreiðslum til eigenda er að veltufjárhlutfallið sé ekki lægra en 1. Það þýðir að fyrirtækið á fé í sjóði sem dugar fyrir skuldbindingum næstu 12 mánaða.

Veltufjárhlutfall

Eiginfjárhlutfall

Eignfjárhlutfall segir til um hversu miklar skuldir hvíla á fyrirtækinu í samanburði við eignir þess. Heildareignir OR voru metnar á 340,1 milljarða króna í lok árs 2018. Markmið eigenda og OR hefur verið að eiginfjárhlutfallið sé ekki lægra en 35% en 40% til lengri tíma.

Eiginfjárhlutfall

Sjóðstaða

Í rekstrar- og efnahagsreikningi hvers fyrirtækis er fjöldi reiknaðra stærða sem eiga að skerpa myndina af rekstrinum á tilteknu tímabili og stöðu hans í lok þess. Sjóðstreymisyfirlitið gefur hinsvegar gleggri mynd af raunverulegu peningastreymi til fyrirtækisins og frá því og hvaða þættir hafa áhrif á handbært fé fyrirtækisins á tímabilinu. Lengst til vinstri sést handbært fé í byrjun árs 2018 og lengst til hægri í árslok.

Sjóðstaða

Lánshæfismat

Lánshæfismat er mikilvægt þeim fyrirtækjum sem skipta við fjármálastofnanir og eru með skráð verðbréf á mörkuðum. Matið hefur þann tilgang að gefa lánveitendum hlutlæga mynd af stöðu og framtíðarhorfum fyrirtækisins. Lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur og annarra íslenskra fyrirtækja getur aldrei orðið hærri en einkunn ríkissjóðs. Einkunnagjöf OR nýtur góðs af ábyrgðum eigenda á lánum. Í dag meta þrjú fyrirtæki lánshæfi Orkuveitu Reykjavíkur; alþjóðlegu fyrirtækin Moody‘s og Fitch og Reitun innanlands.

Gjaldeyrisáhætta

Gjaldeyrisáhætta OR er einkum vegna erlendra lána og tekna Orku náttúrunnar af raforkusölu í bandaríkjadölum. Áhættustefna OR felur í sér að mörk eru sett á hugsanlegt misvægi í rekstri og efnahag vegna þessa. Framvirkir samningar eru gerðir til að draga úr áhættu af óhagstæðri gengisþróun og myndin sýnir áætlað gjaldeyrisstreymi samstæðunnar næstu ár.

Áætlað gjaldeyrisflæði

Vaxtaáhætta

Hækkun vaxta felur í sér áhættu fyrir rekstur og efnahag OR. Dregið hefur verið úr áhættunni á undanförnum árum með því að draga á ný lán með föstum vöxtum og með framvirkum skiptasamningum. Súlurnar sýna hversu mikill hluti heildarskuldbindinga hvers árs ber fasta vexti. Áhætta OR af vaxtahækkunum er nú óveruleg.

Vaxtaáhætta

Þetta erum við
Daníel Ali Kazmi
Daníel Ali Kazmi
Rafvirki

Daníel eða Thunder Dan from Pakistan, er rafvirki í rekstrarteymi Hellisheiðarvirkjunar. Viðurnefnið fína gáfu erlendir liðsfélagar hans, í körfuboltaliðinu Snæfelli frá Stykkishólmi, honum en faðir Daníels er frá Pakistan. Daníel er nýr í starfi hjá OR samstæðunni og líst nokkuð vel á. Það kom honum á óvart hversu langt vinnustaðurinn er kominn í öryggismálum og hversu mikill metnaður ríkir í öllu starfinu. Daníel dreymir um að verða mikill hlaupagarpur, er nýlega farinn að stunda þá íþrótt og stefnir á 50 km hlaup í Henglinum í haust. Hann er alltaf í keppni, sama hvað hann tekur sér fyrir hendur, jafnvel þótt hún fari bara fram í höfðinu á honum.

Álverðsáhætta

OR gerir áhættuvarnarsamninga til þess að verja tekjur af orkusölu til stóriðju fyrir mikilli lækkun álverðs. Slíkir samningar eru gerðir nokkur misseri fram í tímann og myndin sýnir að hve miklu leyti slíkar tekjur hafa verið varðar. Stjórn OR ákvarðar efri og neðri mörk varnarhlutfalla.

Álvarnarhlutfall

Lausafjárstaða

OR gerir álagspróf á lausafjárstöðu samstæðunnar. Til grundvallar er samþykkt fjárhagsspá og á hana er reynt með óhagstæðri þróun ytri þátta. Þeir eru meðal annars gengi gjaldmiðla, álverð, verðlag og vextir. Álagsprófið felur í sér verulega neikvæðar breytingar í þróun allra ytri þáttanna. Línuritið sýnir hvernig lausafjárstaða OR myndi þróast við svo óhagstæð ytri skilyrði.

Lausafjárstaða með og án álagsprófs

Gjaldeyrisjöfnuður í efnahag

Erlendar eignir OR voru umfram erlendar skuldir í árslok 2018. Ástæðan er að starfrækslugjaldmiðill dótturfélagsins Orku náttúrunnar er bandaríkjadalir og eignir þess félags eru meiri en sem nemur öllum skuldum OR í erlendum gjaldeyri.

Gjaldeyrisjöfnuður í efnahag