Árið í hnotskurn

Árið 2018 var viðburðaríkt og lærdómsríkt í fjölbreyttum rekstri OR og dótturfyrirtækjanna. Hér er stiklað á helstu viðburðum.

Árið 2018 var viðburðaríkt og lærdómsríkt í fjölbreyttum rekstri OR og dótturfyrirtækjanna. Hér er stiklað á helstu viðburðum.

12. janúar 2018

Eldur kemur upp í Hellisheiðarvirkjun

Betur fer en á horfist þegar eldur kemur upp í þaki Hellisheiðarvirkjunar. Gasleki reynist líkleg orsök. Engin meiðsl verða á fólki en nokkurt tjón á stöðvarhúsinu. Áhrif á orkuvinnslu voru lítil.

15. janúar 2018

Jarðvegsgerlar í kalda vatninu

Jarðvegsgerlar mælast í neysluvatninu úr Heiðmörk. Engin hætta er á ferðum en viðkvæmum ráðlagt að sjóða vatn. Ástandið varir stutt en gripið er til margvíslegra úrbóta.

7. febrúar 2018

„Magma-skuldabréf“ greitt upp

Greiðendur skuldabréfs sem OR gaf út í tengslum við sölu á hlut fyrirtækisins í HS Orku árið 2009 greiða bréfið upp. Greiðslan nam um fjórum milljörðum króna og dregur greiðslan úr fjárhagslegri áhættu OR.

9. febrúar 2018

Lítið örplast í neysluvatni

Rannsókn sem Veitur gangast fyrir leiðir í ljós lítið magn örplasts í vatninu, en það finnst þó samt. Þetta er fyrsta rannsóknin af þessum toga hér á landi og leiðir til aukinnar umræðu um vandann og þróun aðferða við að meta hann.

19. febrúar 2018

Lokun afgreiðslu OR á Akranesi

OR lokar afgreiðslu fyrir viðskiptavini á Akranesi þar sem rakaskemmdir uppgötvuðust í húsnæðinu við Dalbraut.

7. mars 2018

Lánshæfismat OR hækkar

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch hækkar lánshæfiseinkunn OR. Síðar í mánuðinum gerir Moody's það líka.

7. mars 2018

Veitur tilkynna um lækkun vatnsgjalds

Ákveðið er að vatnsgjald Veitna lækki hjá flestum vatnsveitum fyrirtækisins. Lækkunin verður 10% í stærstu veitunum – í Reykjavík og á Akranesi – og svo veltur hlutfallið á afkomu hverrar vatnsveitu Veitna.

14. mars 2018

13 milljarða sparnaður af vísindaverkefnum

Bjarni Bjarnason forstjóri greinir frá því í erindi á Vísindadegi OR að rannsóknar- og þróunarverkefni við Hellisheiðarvirkjun, sem fengið hafa milljarða króna í erlenda styrki, hafi sparað fyrirtækjunum í samstæðunni um 13 milljarða króna.

22. mars 2018

Ljósleiðarinn á leiðinni í Árborg

Gagnaveita Reykjavíkur og sveitarfélagið Árborg semja um ljósleiðaravæðingu alls þéttbýlis í sveitarfélaginu.

26. mars 2018

Hringvegurinn opinn rafbílaeigendum

Orka náttúrunnar opnar hlöðu í Reykjahlíð við Mývatn. Þar með hefur hringvegurinn allur verið varðaður hlöðum.

5. apríl 2018

Ljósleiðarinn í Reykjanesbæ

Gagnaveita Reykjavíkur og Reykjanesbær semja um ljósleiðaravæðingu í bænum.

12. apríl 2018

Allt starfsfólk OR-samstæðunnar fer á #metoo vinnustofur

Í apríl eru haldnar #metoo vinnustofur þar sem allt starfsfólk OR samstæðunnar hittist og ræðir opinskátt um viðfangsefnið; hvernig viljum við hafa þetta og hverju þurfum við að breyta?

18. apríl 2018

Reykjavíkurborg kaupir tvo hitaveitutanka í Öskjuhlíð

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrita samning um kaup borgarinnar á tveimur hitaveitutönkum Veitna í Öskjuhlíð. Tankana á að nýta undir náttúrusýningu en nýir verða byggðir í staðinn.

16. maí 2018

Bylting í umhverfismálum Akurnesinga - ný skólphreinsistöð

Ný hreinsistöð skólps á Akranesi er tekin í notkun og bætist bærinn þar með í hóp þeirra sveitafélaga sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð.

24. maí 2018

Ljósleiðarinn til Voga

Gagnaveita Reykjavíkur og sveitarfélagið Vogar semja um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli sveitarfélagsins.

5. júní 2018

Ný hreinsistöð í Borgarnesi - tímamót í fráveiturekstri Veitna

Í Borgarnesi er ný hreinsistöð fráveitu Veitna tekin í notkun. Fyrir eru fjórar lífrænar hreinsistöðvar Veitna í uppsveitum Borgarbyggðar, þessa eins víðfeðmasta sveitarfélags landsins.

15. júní 2018

Vetnisstöðvar opnaðar

Orkan opnar tvær afgreiðslustöðvar fyrir vetnisbifreiðar, við Vesturlandsveg í Reykjavík og að Fitjum í Reykjanesbæ. ON mun framleiða vetnið.

18. júní 2018

Góð niðurstaða sjálfbærnimats á rekstri Hellisheiðarvirkjunar

Fyrsta úttekt samkvæmt nýjum alþjóðlegum sjálfbærnimatsstaðli fyrir jarðgufuvirkjun í rekstri leiðir í ljós að „Hellisheiðarvirkjun hefur lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mikilvæg jákvæð félagsleg og hagræn áhrif.“

23. júlí 2018

Gagnaveita Reykjavíkur stofnfélagi í alþjóðlegum samtökum ljósleiðarafyrirtækja

Gagnaveita Reykjavíkur er meðal stofnenda nýrra alþjóðlegra samtaka ljósleiðarafyrirtækja sem vilja sjá gígabita ljósleiðara alla leið til heimila og fyrirtækja og tryggja valkosti í öflugri fjarskiptaþjónustu.

15. ágúst 2018

Ný aðveituæð í Ölfusi

Hleypt er vatni á nýja rúmlega sjö kílómetra langa aðveituæð Veitna fyrir heitt vatn í Ölfusi og í Þorlákshöfn.

17. ágúst 2018

Samið um smáþörungarækt í Jarðhitagarði ON

ON semur við alþjóðlega sprotafyrirtækið Algaennovation um aðstöðu og ýmis orkutengd aðföng fyrir ræktun smáþörunga í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun.

6. september 2018

Gagnaveita Reykjavíkur tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

Ljósleiðari Gagnaveitu Reykjavíkur er tilnefndur til alþjóðlegra verðlauna Carriers World Awards, sem eitt framsæknasta fjarskiptainnviðafyrirtæki í heildsölu.

17. september 2018

Forstjóri stígur tímabundið til hliðar

Eftir að fram koma ásakanir um óréttmæta uppsögn kvenkyns millistjórnanda og karllæga vinnustaðarmenningu hjá OR, stígur Bjarni Bjarnason forstjóri tímabundið til hliðar meðan mál eru skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningunni. Helga Jónsdóttir, lögfræðingur, tekur við á meðan.

17. september 2018

Berglind Rán tímabundið framkvæmdastjóri ON

Ákveðið er að forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Berglind Rán Ólafsdóttir, taki tímabundið við starfi framkvæmdastjóra ON eftir uppsögn Bjarna Más Júlíussonar.

30. september 2018

Tveggja milljarða styrkur til sporlausrar jarðhitanýtingar

OR ásamt samstarfsaðilum hlýtur ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita.

4. október 2018

Frumdrög að endurbótum á Bæjarhálsi kynnt

OR kynnir hugmyndir að breyttu útliti vesturhússins á Bæjarhálsi, sem staðið hefur autt um hríð vegna alvarlegra rakaskemmda.

5. nóvember 2018

Sveinn og rafvirkjameistari báðar konur

Í fyrsta skipti hér á landi og trúlega víðar eru hvorttveggja nemi og meistari í rafvirkjanámi konur. Þetta eru starfsmenn ON, þær Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir sem fékk sveinsbréf og meistarinn hennar var Kristín Birna Fossdal.

7. október 2018

Lýsing á hluta kalda vatnsins

Veitur tilkynna um að bráðlega hefjist lýsing á hluta af því kalda vatni sem höfuðborgarbúar fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því er dregið úr líkum á því að jarðvegsgerlar berist í vatnsveituna.

8. nóvember 2018

Ný hlaða - Vegamót á Snæfellsnesi

Orka náttúrunnar opnar nýja hlöðu á Vegamótum á Snæfellsnesi. Er það önnur hlaðan sem ON opnar a Snæfellsnesi en fyrr á árinu var hlaða opnuð í Ólafsvík.

12. nóvember 2018

Eitt gíg ljósleiðari kominn á hvert heimili í Kópavogi

Ljósleiðaravæðingu Kópavogs lýkur og öllum íbúum í þéttbýli Kópavogs stendur nú til boða Eitt gíg netsamband um Ljósleiðarann.

13. nóvember 2018

ON semur við Etix Everywhere Borealis

ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis skrifa undir samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu.

19. nóvember 2018

Góð vinnustaðarmenning hjá OR – ábendingar um úrbætur

Niðurstaða úttektar innri endurskoðunar á starfsmannamálum og vinnustaðarmenningu OR er kynnt á blaðamannafundi. Vinnustaðarmenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði og uppsagnir tveggja stjórnenda eru taldar réttmætar.

26. nóvember 2018

Úrbætur settar í farveg - Bjarni snýr aftur

Stjórn OR samþykkir að ráðast í útbætur í samræmi við ábendingar í úttekt innri endurskoðunar í vinnustaðarmálum. Bjarni Bjarnason snýr aftur í forstjórastólinn.

28. desember 2018

50. hlaða ON er við Geysi

Orka náttúrunnar tekur fimmtugustu hlöðu fyrirtækisins í notkun við Geysi í Haukadal. Mikilvægt skref fyrir ferðaþjónustuna, segir Berglind Rán framkvæmdastjóri ON.