Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö, sjá viðauka. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.
Í ársbyrjun 2018 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í fimm neysluvatnssýnum úr borholum í Heiðmörk. Í kjölfarið var staðan greind, sýnatökueftirlit aukið og neysluvatn lýst úr einni borholu til að draga úr líkum á því að örverur berist í vatnsveituna við sérstakar veðuraðstæður. Unnið er að tilraunarverkefni á samtímagreiningu á örverum í neysluvatni. Síðla árs 2018 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í Nesjavallavirkjun en við endurtekna sýnatöku stóðust sýnin gæðakröfur.
Vatnsverndarsvæðin eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk, sjá viðauka. Til að minnka hættu á olíuslysi hafa Veitur tekið í notkun vetnisbíl í stað lekaskoðaðs díselbíls við eftirlitið.
Veitur áforma að auka vatnsvinnslu í Vatnsendakrikum í Heiðmörk.
Veitur hafa rannsakað örplast í neysluvatni í borholum og í dreifikerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Örlítið plast fannst í kerfinu og er uppruni óljós. Engin viðmiðunarmörk eru um örplast í neysluvatni. Unnið er að þróun söfnunar- og greiningaraðferða.