Kristinn öðlaðist þennan fína titil með löngum starfsaldri í bransanum að loknu vélvirkja- og vélstjóranámi. Hann er á réttum stað í lífinu því honum finnst betra að stýra vélum en fólki. Kristinn tók þátt í uppbyggingu Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjunar og segir það hafa verið mjög lærdómsríkt og það skemmtilegasta sem hann hefur gert á starfsævinni. Í frítíma sínum er hann á kafi í félagsmálum tengdum íþróttum enda gömul handboltakempa úr Stjörnunni í Garðabæ. Þar skaut hann boltanum í markið en skýtur nú annars konar skotum því hann á fimm byssur og er í stjórn skotfélags.