Brynhildur Davíðsdóttir
Það vantaði ekki viðfangsefnin í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur árið 2018 fremur en endranær. Stjórn fyrirtækisins hélt áfram að styrkja grunnstoðir stefnu þess og breyting var gerð á stjórnháttum samstæðunnar. Sátt var um hvort tveggja innan stjórnarinnar og meðal eigenda, sem er mikilvægt fyrir allt það fólk sem nýtur þeirrar mikilvægu þjónustu sem fyrirtækinu er treyst fyrir.
Orkuveita Reykjavíkur sinnir grunnþörfum íbúa í fleiri en 20 sveitarfélögum. Það eru þrjú sveitarfélög sem eiga OR – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð. Eigendurnir eiga fé bundið í fyrirtækinu sem gæti nýst þeim í öðrum verkefnum í þágu íbúanna. Í krafti síns lýðræðislega umboðs hafa sveitarstjórnir í þessum sveitarfélögum valið að eiga þetta fyrirtæki. Markmið þeirra með eignarhaldinu er skýrt og því lýst í eigendastefnu sem Orkuveita Reykjavíkur starfar eftir. Hlutverk stjórnar er að framfylgja grundvallarsjónarmiðum eigendastefnunnar, þar á meðal að starfa í anda samfélagslegrar ábyrgðar.
Frá árinu 2010 og fram á síðustu misseri hefur fjárhagur OR verið í brennidepli. Þá þurfti að grípa til róttækra aðgerða til að rétta fjárhaginn af. Eftir að hann komst á traustan grunn og reksturinn fór að skila afgangi, blasti við sú spurning hvernig verja ætti honum. Á að lækka verð á þjónustunni, á að greiða arð eða gera hvort tveggja?
Eigendastefna OR segir að eigendur fyrirtækisins eigi að fá arð af fjárfestingum sínum, þar sem telja verður sanngjarnt að sveitarfélögin sem fjárfest hafa í OR og bera áhættu af þeim fjárfestingum, fái eitthvað fyrir sinn snúð. Til þess að setja mörk og skýra samspil arðs og verðs, voru á árinu sett arðsemisviðmið á alla starfsþætti: verði ábati umfram mörk er greiddur arður og/eða verð lækkað. Lögbundin mörk hafa verið sett á ábata eigandans í ýmissi þjónustu OR-samstæðunnar, sem nýtur einkaleyfis. Þess vegna lækkar verð ef reksturinn gengur vel. Á síðustu árum hefur verð á sérleyfisþjónustu ítrekað verið lækkað vegna bættrar fjárhagsstöðu. Samkeppnisreksturinn er hins vegar áhættumeiri og afkoman breytilegri frá ári til árs. Um leið er eðlilegt að eigendur Orkuveitu Reykjavíkur geri meiri kröfu til ávöxtunar þess fjár sem bundið er í samkeppnisrekstri.
Samhliða þeim miklu umskiptum sem urðu á fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2010 var lyft grettistaki í jafnréttismálum. Hlutfall kvenna meðal stjórnenda fór úr fjórðungi í helming, kynbundnum launamun var útrýmt, starfsemin sett undir opinbera jafnlaunavottun og ráðist í metnaðarfull verkefni til að vinna gegn kynjaskiptum vinnustað. Eftir að #metoo byltingin hófst voru haldnar vinnustofur með þátttöku alls starfsfólks til að skerpa sýnina og opna augun fyrir ofbeldi hversdagsins: kynferðislegu áreiti, kynbundnu áreiti og einelti.
Það reyndi á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þegar á borð hennar bárust ásakanir um kynbundið áreiti og mismunun innan fyrirtækisins. Stjórnin var einhuga um að taka ásakanirnar alvarlega og láta skoða ofan í kjölinn hvort innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyndist ómenning sem þyrfti að uppræta. Úttektarskýrslan, sem er opinber, leiddi í ljós að þrátt fyrir að vinnustaðarmenning fyrirtækisins sé heilbrigð, eru umbætur í nokkrum þáttum nauðsynlegar. Unnið er að þeim úrbótum.
Á ábyrgð stjórnar var meðal annars að gaumgæfa hvort heppilegt væri að forstjóri OR væri jafnframt formaður stjórnar í dótturfélagi. Niðurstaðan var að svo væri ekki og tillaga stjórnar OR til eigenda um breytingu á sameignarsamningi þar að lútandi hefur verið samþykkt í sveitarstjórnum allra eigenda.
Eitt mikilvægasta hlutverk samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur og formæðra hennar hefur ætíð verið að tryggja lífsgæði til framtíðar. Hér er engin breyting á og hefur samstæðan sett sér metnaðarfull markmið um sporlausa vinnslu, hreinar strendur, að ævinlega sé veitt hreinu vatni og að tryggt sé að nægt heitt vatn sé til staðar. Auk þess mun samstæðan ekki aðeins draga úr losun gróðurhúsaloftegunda frá eigin starfsemi heldur einnig auðvelda öðrum að draga úr útstreymi til dæmis með því að styðja við orkuskipti.
Stjórn OR hélt 15 fundi á árinu 2018 auk reglubundinna funda með eigendum í júní og í nóvember. Starfsáætlun stjórnar um reglubundin verkefni gekk eftir. Rýni á heildarstefnu OR og starfsháttum stjórnar, sem áformuð var á árinu 2018, var þó frestað og stendur sú rýni nú yfir.
Starfsfólki öllu í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnendum og stjórnarmönnum færi ég bestu þakkir fyrir vel unnin störf árið 2018.