Bjarni Bjarnason
Ásýnd þeirrar þjónustu sem Orkuveita Reykjavíkur er ábyrg fyrir hefur breyst mikið á síðustu árum. Frá því um aldamót, þegar veiturnar voru sameinaðar, var það Orkuveitan sem reisti virkjanir, lagði ljósleiðara til heimila og sá um almenna veituþjónustu fyrir verulegan hluta íslensku þjóðarinnar. Síðastliðin fimm ár eru það hins vegar Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur, sem hafa verið í framlínu samskipta við viðskiptavini og haslað sér völl í hugum almennings og tekist það vel.
Þrátt fyrir lagaboð um að skipta Orkuveitu Reykjavíkur upp í móðurfélag og sjálfstæð dótturfélög er ábyrgðin á því, að þjónustan sé ávallt til reiðu gagnvart þeim sveitarfélögum sem Orkuveita Reykjavíkur þjónar, óbreytt. Orkuveita Reykjavíkur á dótturfélögin þrjú að fullu og markar þeim stefnu. Það er því eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur sé til umræðu þegar vel tekst til og líka þegar betur hefði mátt fara. Þátttaka móðurfélagsins í opinberri umræðu er því eðlileg og nauðsynleg.
Ef við lítum til nokkurra grundvallarkrafna sem gerðar eru til Orkuveitu Reykjavíkur þá stóð samstæðan prýðilega undir þeim á árinu 2018. Ánægja viðskiptavina með þjónustuna var áfram prýðileg og verð fyrir hana hóflegt. Engu að síður var afkoma samstæðunnar traust og reksturinn skilaði sanngjörnum arði til eigenda. Áfram dró úr áhrifum starfseminnar á loftslag og umhverfi og betra jafnvægi komst á nýtingu á þeim auðlindum sem okkur er trúað fyrir. Orkuvinnsla á Hengilssvæðinu gekk mjög vel og það spor sem hún skilur eftir sig í andrúmsloftinu minnkar ört. Binding jarðhitalofts í bergi var meiri en nokkru sinni og vel tókst til með borun til að viðhalda vinnslugetu virkjananna. Rekstur fráveitunnar var traustur og vel gekk að bregðast við þegar jarðvegsgerlar í áður óþekktu magni gerðu vart við sig í neysluvatninu úr grynnstu holunum í Gvendarbrunnum.
Orkuveita Reykjavíkur sem vinnustaður liðlega 500 manns mætti mikilli áskorun á árinu 2018. Alvarlegri ásökun um óviðeigandi framkomu, sem kom fram í tengslum við uppsögn starfsmanns, fylgdu fullyrðingar um að vinnustaðarmenning hjá samstæðunni væri í molum. Orkuveita Reykjavíkur hefur verið í fararbroddi í ýmsum jafnréttismálum síðustu ár og því kom þetta sérlega illa við okkur. Menninguna varð að skoða ofan í kjölinn, með trúverðugum hætti af óháðum aðilum. Það var gert.
Niðurstaða hinnar óháðu úttektar kom stjórnendum og starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna ekki á óvart. Vinnustaðarmenningin er traust en umbótatækifæri eru líka fyrir hendi og unnið er skipulega úr þeim ábendingum sem fram komu við úttektina. Þrátt fyrir þessa ágjöf jókst starfsánægja meðal starfsfólks samstæðunnar á árinu 2018. Úttektarmælingar staðfestu fyrri kannanir á starfsanda og starfsánægju og undir lok ársins, við reglubundna mælingu Orkuveitunnar sjálfrar, mældist starfsánægja og traust til stjórnenda há miðað við almennan vinnumarkað og fer enn vaxandi. Vel má hugsa sér að niðurstaðan hefði orðið önnur ef kvörtunin í kjölfar uppsagnarinnar hefði ekki verið tekin jafn alvarlega og raun bar vitni.
Eitt farsælasta verkefni í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur um langa hríð gekk undir nafninu „Planið.“ Það var fjárhagsleg björgunaráætlun sem stóð á árabilinu 2011-2016. Markmið þess var eitt og aðeins eitt; að efla fjárhag fyrirtækisins, sem kominn var að fótum fram, þannig að það væri fært um að sinna hlutverki sínu. Árangur Plansins var umfram markmið, ekki bara í fjárhagslegum efnum heldur skilaði samhentur hópur eigenda, stjórnar, stjórnenda og starfsfólks ýmsum öðrum árangri samhliða. Stjórnhættir efldust, gegnsæi og upplýsingagjöf jókst, verklag á ýmsum sviðum var betrumbætt, konur létu mun meira til sín taka í rekstrinum, kynbundnu launamisrétti var útrýmt, starfsánægja jókst og ímynd Orkuveitu Reykjavíkur styrktist eftir því sem lýðum varð ljósara að markmið Plansins myndu nást.
Síðustu misseri hefur ímynd móðurfélagsins í Orkuveitusamstæðunni látið undan síga samkvæmt mælingum þar á. Við þessu þurfum við og eigum að bregðast. Í góðum hug sem almenningur ber til fyrirtækis felast verðmæti og um þau þarf að standa vörð. Verkefnið framundan er ekki neyðarverkefni á borð við Planið heldur samþætt vinna þar sem Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélögin Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur geta lagt sitt af mörkum til að bæta samfélagið sem við deilum. Loftslagsmarkmið okkar skipa þar veglegan sess en líka hvernig við getum stutt aðra við að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Þar eru orkuskipti í samgöngum lykilþáttur og þar á samstæðan áfram að vera í forystu. Öryggi og heilsa starfsfólks skipta höfuðmáli og í þeim efnum höfum við sett okkur metnaðarfull markmið og að starfsfólk samstæðunnar verði áfram ánægt í starfi. Í öllum þessum efnum teljum við að Orkuveita Reykjavíkur verði að standa sig vel til að starfa í góðri sátt við samfélagið sem hún þjónar.